þriðjudagur, desember 30, 2008

Daglegt líf: Viðgerð að baki og sjónvarpsnautn framundan

Sú gjöf sem kom okkur hvað mest á óvart var dýrindis sjónvarpsflakkari með fullt af sjónvarpsefni, þökk sé rausanrlegri áfyllingarþjónustu Villa bróður. Flakkarinn hafði að geyma barnarefni af ýmsum toga, bíómyndir og alls kyns fræðsluefni - svo að ekki sé minnst á sjónvarpsseríur sem við eigum eftir að horfa á. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að flakkarinn lét ekki að stjórn. Diskurinn í honum var greinilega fullur af efni (sem hægt var að skoða með hjálp tölvu) en flakkarinn náði ekki að miðla af því til sjónvarpsins. Ég fékk fullt af fólki til að kíkja á hann en allt kom fyrir ekki. Enginn kannaðist við gallann. Eftir að hafa beðið af okkur jólin í flakkaraleysi fórum við með hann á verkstæði Tölvulistans í gær. Í ljós kom eftir grandskoðun þeirra að flakkarinn væri bilaður. Þeir buðu mér nýjan af sömu gerð en niðurstaðan var sú sama (framleiðslugallinn virtist bundinn við sendinguna). Þá var tekin sú afgerandi ákvörðun á síðustu stundu, rétt fyrir lokun, að uppfæra og kaupa dýrari gerð af flakkara (og þeir niðurgreiddu mismuninn um þriðjung þannig að allir voru sáttir á endanum). Sá flakkari var ýmsum kostum umfram hinn búinn og hafði að geyma bæði betri upplausn, mun betri fjarstýringu, lítinn skjá á hýsingunni sjálfri og takka (sem gerir mann nánast óháðan fjarstýringunni). Það sem meira er, flakkarinn virkar eins og í sögu. Hann er gríðarleg búbót. Nú er bara um að gera að njóta þess á meðan restin af árinu rennur sitt örskamma skeið á enda.

Engin ummæli: