föstudagur, janúar 02, 2009

Pæling: 2008 verður 2009

Nú er árið 2008 að baki. Flestir eru því væntanlega fegnir. Árið var okkur í Granaskjólinu hins vegar mun léttara en árin þrjú á undan. Þau einkenndust af miklum breytingum (fæðingar), launaskerðingu (fæðingarorlof), frelsissviptingu (ólétta og sú byrði sem því fylgir auk stöðugrar viðveru og bindingar sem tekur tíma að læra á) auk mikilla veikinda. Á sama tima var mikill uppgangur í samfélaginu sem við urðum engan veginn aðnjótandi að. Íbúðaverð snarhækkaði og möguleikinn á að koma sér fyrir fjarlægðist ár frá ári. Í ár var hins vegar allt annað uppi á teningnum. Allir voru mjög frískir að jafnaði og heimilishaldið fann langþráðan stöðugleika. Hugrún og Signý eru nú báðar komnar í leikskóla og við foreldrarnir farin að vinna meira sem því nemur. Hvað stærra samhengið varðar þá hefur samfélagið hefur líka snarbreyst og öll lögmál önnur en fyrir ári síðan. Margt hefur versnað í kjölfarið (verðhækkanir, viss vöruskortur, reiði og óvissa allt í kring) en við höfum komist nokkuð klakklaust í gegnum þetta allt saman (enda græddum við aldrei á góðærinu svokallaða á sínum tíma). Sú örvænting sem greip eignalaust og upprennandi fjölskyldufólk fyrir ári síðan hefur nú umbreyst í örvæntingu þeirra eignameiri og auðjöfra. Furðuleg umskipti það.

Áramótaskaupið, sem mér fannst annars mjög misjafnt, tók mið af þessu með frábæru lokaatriði. Þá var lagið "Happy New Year" með Abba sungið fádæma vel í vandaðri raddsetningu. Það sem fáir gera sér líklega grein fyrir er að sviðsmyndin var því sem næst nákvæm eftirmynd af næstsíðustu plötukápu Abba en sú plata einkenndist af söknuði og eftirsjá eftir hamingjusamari tímum (Abba-plöturnar og textar þeirra endurspegluðu ár frá ári hnignandi tilfinningalíf paranna tveggja). Þetta er platan sem sagði að gleðigangan væri á enda: "Partíið er búið". Í kjölfarið var þetta bara spurning um að taka saman og segja bless.

ABBA - Super Trouper

Við skulum vona að árið 2009 muni ekki einkennast af slíkum drunga. Að minnsta kosti hef ég mikla tiltrú á því sem framundan er.

Engin ummæli: