Í dag þegar ég sótti Signýju var mér afhentur bunki af bleyjum í leiðinni. Núna er hún sem sagt formlega hætt að nota bleyjur í leikskólanum (að sjálfsögðu fór ég ekki lengra með bunkann en yfir á deildina hennar Hugrúnar). Signý er búin að vera alveg þurr tvo fyrstu dagana í leikskólanum eftir jólafríið. Það finnst mér vel af sér vikið í ljósi þess hvað rútínan var mikið á reiki í fríinu (með tilheyrandi óhöppum öðru hvoru).
Þegar við komum yfir til Hugrúnar tóku við hefðbundnir fagnaðarfundir hjá þeim, nema hvað mér fannst þær vera óvenju lengi í faðmi hvorrar annarrar - ábyggilega tuttugu sekúndur. Það er greinilega mjög kært á milli þeirra. Maður er svosem hættur að láta sér bregða þó það sé alltaf jafn hjartnæmt að horfa á þær saman. Hins vegar var ég gapandi um daginn þegar ég varð vitni að einverjum fallegustu samskiptum sem átt hafa sér stað í þessari íbúð:
Það var á sunnudaginn var og við Vigdís sátum saman og horfðum á sjónvarpið. Við tímdum ekki að svæfa þær strax af því sjónvarpið var svo spennandi (lokaþáttur danska þáttarins Sommer). Við leyfðum þeim að leika sér rólega á meðan. Signý var hins vegar dauðsyfjuð og lagðist í sófann og lognaðist brátt út af undir sænginni sinni. Voða huggulegt. Hugrún var hins vegar ekki tilbúin að horfa upp á systur sína sofna frá sér (hún hafði lagt sig í hádeginu en Signý ekki). Hugrún gekki rakleiðis að Signýju þar sem hún lá og stóð yfir henni og fyrirskipaði henni eitthvað.... með því að kalla "DIH-DÍ!"(systir). Mér fannst hún gelta þessu að henni mjög ákveðið eins og yfirmaður sem kemur að starfsmanni sofandi. Ég brosti og lyfti Hugrúnu upp og færði hana til hliðar og sneri henni frá Signýju. Þá gekk hún aftur rakleiðis í boga til Signýjar og hélt áfram að hrópa "DIH-DÍ!". Þetta endurtók sig nokkrum sinnum og alltaf strunsaði Hugrún beint til Signýjar. Þá var loksins eins og hún áttaði sig á því að Signý myndi ekki svara henni. Hún lyfti sænginni örlítið og snerti höndina varlega. Síðan horfði hún á systur sína, strauk á henni vangann nokkrum sinnum og kyssti á ennið. Hún stóð þarna áfram nokkra stund fullkomlega tillitssöm eins og hún væri í fyrsta skipti að sjá systur sína í kyrrmynd. Á meðan Signý var algjörlega ómeðvituð um hvað var að gerast strauk Hugrún henni áfram og kyssti hana aftur á ennið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
HÆ ljúft og sætt að fylgjast með þeim systrum
Vonadi verður þetta alltaf svona....
Bestu kveðjur ....
Gaman að vita hvað bleyjudæmið gengur vel ...áður en þið vitið af verður Hugrún líka hætt á bleyju....
Begga frænka...
Skrifa ummæli