Maður þarf virkilega að leggja sig fram ef það á að skrá hjá sér öll framfaraskref yngstu fjölskyldumeðlimanna. Signýju tek ég fyrir annars staðar, en hún er farin meðal annars að ná góðum tökum á s-hljóðinu og errinu. Hugrún er hins vegar nýlega farin að tjá sig í hálfum setningum. Hún segir: "Meiddi mig" eða "Mamma heima". Þegar ég sótti hana á leikskólann um daginn sagði hún skýrt "Þetta er pabbi". Oft notast hún við eignafornafn sem viðhengi við það sem henni þykir vænt um, eins og "peli minn". Hins vegar ef hún vill fá pelann segir hún bara "pelann" og þá gefur fallið meininguna til kynna.
Svo er fullt af orðum að bætast við orðaforðann, flest hver notuð á stangli (erfitt að góma) en þau sem komin eru í daglegan orðaforða eru til dæmis "sjá" (sem hún notar til að biðja um að fá að sjá eitthvað, kíkja í bók til dæmis). Núna upp á síðkastið hefur maður heyrt hana segja "ma´sjá". Orðið "opna" hefur líka verið mjög áberandi síðan í desember (borið fram "áttna" - virkaði vel yfir jólapökkunum en notast dags daglega á dyr og leikföng með hlerum). "Heitt" er líka mjög praktískt orð sem notast helst í baði. Allra sætasta orðið finnst mér hins vegar vera "vakna". Hún ber þetta orð yfirleitt fram við rúmstokkinn, sérstaklega þá daga sem ég hef fengið að sofa út og hún fær leyfi til að hreyfa við mér. Þá er ljúft að fara á fætur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli