föstudagur, janúar 30, 2009

Þroskaferli: Tveggja orða setningar á færibandi

Það fer sko ekki á milli mála að Hugrún er farin að mynda tveggja orða setningar. Nú kemur þetta á færibandi. Í dag sótti ég þær systur á leikskólann, gangandi, og á leiðinni heim leit Hugrún upp og sagði uppnumin "Dúlli!" og átti þar við tunglið sem greina mátti á björtum himnum sem örþunna sigð. Mér þótti þetta út af fyrir sig vel af sér vikið. Nokkru síðar bætti hún hins vegar um betur, á meðan hún horfði enn upp í átt til tunglsins: "uppi - himnum". Fyrra orðið er orðið eitt af hennar uppáhalds orðum. Hún notar "uppi" fyrir ýmislegt sem hún nær ekki til og hefur hingað til takmarkast við hluti innanhúss. Þetta fannst mér hins vegar mögnuð yfirfærsla. Við gengum síðan áfram fram hjá næsta húsi en þá sagði hún að bragði: "Dinnt" (týnt) en skömmu síðar birtist "dúlli" aftur.

Aðrar vinsælar "tveggja orða setningar" þessa dagana bera keim af því hvað henni vex ásmegin: "ég sjálf" og "ekki svona!". Sú fyrri lýsir því ágætlega hvernig hún er almennt mótfallin því að njóta aðstoðar, sérstaklega við kvöldmatinn eða tannburstun. Hitt á við þegar einhver er að pirra hana á einhvern hátt, viljandi eða óviljandi. Þá segir hún mjög ákveðið, með hörðu tónfalli: "Eh-Ki Sona!!"

Engin ummæli: