föstudagur, janúar 30, 2009

Þroskaferli: Signý raðar saman heiminum

Signý kom mér skemmtilega á óvart í gær eftir að skál brotnaði innanhúss og skildi eftir sig glerbrot víða um gólf. Ég notað tækifærið og útskýrði fyrir Signýju hvað þessi brot geta verið varasöm því þau geta skorið mann, og þá kemur blóð, og "það er ekki gott" (notaði þarna hennar eigin orðalag). Þá horfði hún á mig alvörugefin til baka eins og hún skildi mig til fullnustu og undirstrikaði það með því að benda á upphandleggsvöðvann og sagði að blóðið væri "hérna". Síðan bætti hún við, mjög svo útskýrandi, að inni í okkur væri líka "beinagrind".

Þá varð mér nú hugsaði til þess hvað þær væru að vinna gott starf í leikskólanum því við höfum aldrei minnst á beinagrind hér innanhúss. Ég hef reyndar tekið eftir því, þegar ég sæki Signýju, að krakkarnir hafa aðgang að mjög skemmtilegu líkamspúsli, þar sem ýmsum "lögum" líkamans er púslað hvert ofan á annað. "Beinagrindin" er eitt lagið, "æðakerfið" annað, "líffærin" enn eitt og "húðin" augljóslega lokastigið. Þetta situr greinilega vel eftir hjá minni.

Signý virðist vera mjög eðlilega forvitin og leitandi. Stundum er maður alveg hissa á fróðleiksfýsninni. Nýlega tók hún sig til við að lesa myndrænan atlas sem ég hef óvart haft í námunda við hilluna þeirra. Þetta er stór atlas, en ekki þungur. Hann er myndrænn og grípur augað, með fullt af myndum af dýrum, farartækjum, byggingum og öðru því sem einkennir heimsálfurnar og löndin sem fyrir finnast. Allar eru myndirnar í smágerðri útgáfu á víð og dreif um kortin. Þetta skoðar Signý af brennandi áhuga og finnst sérstaklega áhugavert að finna mynd eða fyrirbæri tvítekið (henni finnst alltaf jafn dularfullt að sjá sólhlífar og sólbekki - tákn um sólarstrendur - á hverri einustu blaðsíðu). Svo er hún fljót að fara í leik - þar sem hún spyr mig um fyrirbæri og ég þarf að leita að því (eða öfugt). Það sem mér finnst hins vegar athyglisvert er að hún var fljót að spyrja um Ísland.

Þetta "hugtak" hefur borið á góma áður í tengslum við kort. Ég hef alltaf haldið að hún tengdi "Ísland" bara við "kort" almennt en nú kom skýrt í ljós að hún gerði sér grein fyrir að Ísland væri afmarkaður staður á kortinu. Ekki hef ég lagt þetta neitt inn hjá henni, þannig að líklega kemst hún í kynni við þetta gegnum fjölþjóðlega fræðslu og landasamanburð í leikskólanum (svo ég vísi nú aftur í starfsemina þar). Signý var sem sagt ekki viss um hvar Ísland væri að finna svo ég sýndi henni Ísland á kortinu. Stuttu síðar spurði ég hana aftur, á öðru korti, og var eiginlega hissa á því hvað hún var örugg þegar hún benti á Ísland. Þetta endurtók hún nokkrum sinnum, á fleiri kortum, og sumum þeirra nokkuð ólíkum (annað sjónarhorn, önnur stækkunarhlutföll eða þjóðlandakort í regnbogans litum) og hún fipaðist varla nokkrum tímann - full af áhuga, allan tímann. Mikið fannst mér þetta gaman. Þetta gátum við rýnt í saman og lagt þrautir fyrir hvort annað og spekúlerað svolítið. Þetta er bónus því ég átti alls ekki von á því að ég myndi "skoða heiminn" með Signýju svona snemma.

Engin ummæli: