mánudagur, febrúar 09, 2009

Daglegt líf: Tíu daga törn

Nú er frekar strembin vika að baki, sem hófst með því að Signý veiktist kvöldið sem ég skrifaði síðustu færslu (föstudaginn fyrir tíu dögum síðan). Hún var lasin fram yfir helgi og við vorum orðin uggandi yfir því hvað hitinn mallaði lengi. Svo lagaðist þetta snarlega á þriðjudaginn og hún fór í leikskólann aftur daginn eftir. Þá var Hugrún orðin eitthvað kvefuð og pirruð, en veiktist samt ekki. Á föstudaginn var litu þær báðar mjög frísklega út - fullar orku - en þurftu hins vegar að vera heima vegna starfsdags í leikskólanum. Vigdís var þá á morgunvakt sem hún gat ekki hliðrað til, svo við urðum að redda pössun. Reyndar var Vigdís búin að vera á kvöldvakt daginn á undan þannig að við vorum ansi þreytt þegar helgin loksins hófst. Vorum slöpp og fannst okkur báðum við vera hálf lasin. Héldum okkur að mestu innandyra og söfnuðum kröftum. Þannig rann afmælisdagur Vigdísar í gegn, í algjöru orkuleysi, en við leyfðum okkur þó að horfa á góða mynd saman. Daginn eftir var hins vegar haldið aðeins veglegar upp á tímamótin og við fórum saman út að borða með Ásdísi og Togga (gamla góða Ítalía). Aftur fengum við pössun. Í fyrra skiptið hafði það verið tengdó (Sirrý) en í þetta skiptið var það Begga systir. Það er gott að eiga góða að. Signý og Hugrún fengu því líka einhverja tilbreytingu út úr þessu öllu saman. Svo fórum við í mat í gær (sunnudag) til mömmu (sem systrunum finnst alltaf mjög spennandi).

Signý og Hugrún taka eftir öllu sem fyrir augu ber. Á leið til mömmu varð Hugrúnu litið niður á stéttina, sem var samansett úr litlum hellum (eins og "i" með þverstriki uppi og niðri, sem gengur hvert inn í annað). Hún var fljót að tengja þetta við daglega reynslu og sagði "puttlið haddna" (púsl hérna). Signý tók hins vegar eftir kamínunni sem mamma og pabbi eru með í sjónvarpsherberginu sínu. Þetta er stærðarinnar leirker, með opi að framanverðu og loftop að ofan. Hún sá hins vegar strax að þetta var "strompur". Hvar kynntist hún annars strompi? Er það eitthvað sem börnin sjá í barnabókum? Mér er spurn, því strompar eru ekki áberandi í borgarlandslaginu kringum okkur.

1 ummæli:

Berglind sagði...

Takk elskurnar fyrir að leyfa mér og treysta mér fyrir stelpunum...
Þær eru gullmolar og hvert skipti með þeim er yndilegt og í raun ..
Guðs blessun ....væmið en satt....
Þegar maður mætir fær maður knús og faðmlög í massavís og það yljar manni....
Takk fyrir mig....
Begga frænka...