föstudagur, febrúar 13, 2009

Þroskaferli: S, V og H.

Mikið er gaman að fylgjast með Signýju þessa dagana. Hún er öll að vakna til vitundar um heiminn eins og hann leggur sig. Ég talaði síðast um heimskortalestur. Núna nýlega er hún líka farin að gefa stöfunum gaum, sérstaklega sínum eigin (S), Hugrúnar (H) og mömmu sinnar (V). Það er heppilegt hvað þessir þrír eru mjög afgerandi og skýrir. Ég hef otað að henni fleiri stöfum og hún þekkir nokkra í viðbót, en hinir geta ruglast svolítið ("Þ" og "B" til dæmis). Þess vegna hef ég passað upp á að færa henni ekki of mikið í fang í einu. Hún fór nefnilega sjálf að forvitnast og ég treysti því að henni farnist best ef hún heldur frumkvæðinu.

Signýju líður ferlega vel með það að sjá þessa þrjá stafi allt í kringum sig. Núna keyrir maður ekki lengur gegnum bæinn án þess að hún hrópi upp yfir sig: "Pabbi, ég sá stafinn hennar mömmu!" eða "Sjáðu! Þarna er stafurinn minn!". Bílar með auglýsingum eða skilti í vegkantinum eru orðin mjög spennandi tilsýndar. Um daginn tók hún meira að segja upp á því að skrifa þessa þrjá stafi og gerði býsna skýran greinarmun á öllum þessum þremur stöfum (nú er það blað í öruggri vörslu ásamt öðrum merkum og dagsettum pappír inni í geymslu).

Í gær tók Signý eftir því í baði að "stafurinn hennar Hugrúnar" væri á veggnum. Ég horfði á flísarnar á veggnum á móti, sem eru ferningslaga, og áttaði mig á því að hún hlyti að hafa séð "H" út úr rétthyrndu línunum milli flísanna. Þá tók ég mig til og prófaði að yfirfæra. Ég sá fyrir mér aðrar flísar (á öðrum baðvegg) sem ágætis grunn fyrir "S" vegna þess að þær lágu á ská. Á milli þeirra var línan eins og "x" og með góðum vilja gat ég búið til köntótt "s"). Á þetta strengdi ég glært límband og dró skýra línu á límbandið með vatnsheldum tússpenna (ekki gat ég tússað yfir flísarnar sjálfar!). Signý horfði á þetta og kannaðist ekkert við stafinn sinn. Mér tókst sem sagt ekki að kveikja áhuga hennar á þessum skásettu flísum með sama hætti og hún hafði fengið áhuga á hinum. Ég sagði henni gagngert að þetta væri "S" en hún bara samþykkti það ekki. Þá fór ég að leika mér með límbandið og ákvað að mýkja línurnar, færði það til og lét það falla þvert yfir flísarnar í fallegum mjúkum boga. Þá tók mín við sér og kannaðist við stafinn sinn. Hún skoðaði hann nánar og sagði síðan ánægð: "slanga". Þá fattaði ég að mýktin í stafnum er aðalmálið. Stafurinn verður að vekja upp tilfinningu fyrir slöngu. Auðvitað.

Engin ummæli: