3. dagur á spítala
Síðasti dagurinn á spítala var undarlegastur þeirra allra. Þá var ég ekki lengur "veikur" (hitalaus síðan kvöldið á undan) og vaknaði býsna sprækur um sjöleytið, eftir sýklalyfjagjöf í æð. Fékk mér morgunmat og fór af stað, rölti um, fór í sturtu og undirbjó daginn. Ég átti nefnilega von á heimsóknum. Begga systir kom fyrir hádegi og Bjartur eftir hádegi. Síðar um kvöldið átti ég von á Jóni Má í sömu erindagjörðum. Ég var snöggur að sjá Borgarspítalann fyrir mér sem lipurt kaffihús á níu hæðum. Mér fannst tilhugsunin skemmtileg að geta boðið upp á allar þessar setustofur í almennu rýmunum, auk huggulegs herbergis með kaffi innst á sjálfri deildinni. Ég hafði svo sem ekkert sérstakt í hyggju annað en að hvíla mig, borða, lesa blöð og bækur og taka á móti gestum. En þar sem ég var orðinn mjög sprækur fannst mér erfitt að liggja langtímum saman, jafnvel þó lesefnið væri áhugavert. Ég gleypti þó í mig þrjú eintök af "Skakka turninum" og lá á meltunni lengi yfir sérkennilegum og oftar en ekki óhugnanlegum greinum þar. Einnig komst ég í eina almennilega bók í setustofunni inni á deildinni, sem heitir því drungalega nafni "Verónika ákveður að deyja", eftir Paolo Coehlo. Kannski óviðeigandi bók á þessum stað. Kannski ekki. Ég var að minnsta kosti mjög hrifinn af fyrstu fimmtíu blaðsíðunum og hef nú keypt hana eftir að ég kom heim, til að lesa áfram af áfergu.
Dagurinn leit því vel út en upp úr hádegi en þá fór ég að taka eftir takmörkunum mínum í fyrsta skipti síðan ég var "veikur". Bjartur var í heimsókn, upp úr hádegismat, og ég fann fyrir talsverðu úthaldsleysi og þreytu í höfðinu. Ég hafði verið á fótum meira eða minna frá því fyrir átta og það kom í ljós að ég gat bara ekki meira en þetta. Ég vissi að til stæði að útskrifa mig fljótlega, kannski seinna um kvöldið, eða morguninn eftir, og ég hafði alltaf tekið vel í það. Núna fóru hins vegar að renna á mig tvær grímur. Eftir heimsóknina fór ég inn á herbergi og reyndi að leggja mig. Kliðurinn af ganginum hélt mér hins vegar vakandi. Hálf afsakandi rölti ég fram og bað um leyfi til að loka að mér. Vissi ekkert hvort vinnureglan væri sú að geta gengið rakleitt inn til sjúklinganna. Svo vissi ég ekki hvort þau ætluðu að sinna herbergisfélaga mínum, sem þurfti miklu meiri aðstoð en ég. Þetta fannst þeim bara fyndið og ég var eiginlega vandræðalegur yfir því (höfuðið enn svo sljótt að mér datt ekki í hug neitt skemmtilegt tilsvar). Ég horfði eftir ganginum og sá að allar stofurnar voru galopnar. Fannst ég vera með vesen, með sérþarfir, en samt ekki. Ég kunni bara ekki almennilega á mig, allt í einu. Fór inn, tókst ekki að sofna. Setti á mig tónlist, tókst samt ekki að sofna. Þá kom að því að félaganum var sinnt í talsverðan tíma. Það var einhvern veginn alltaf þannig að þegar ég lá og beið eftir að einhver birtist, þá kom enginn langtímum saman. Þegar ég vildi hvílast, þá var nóg um að vera, inn og út. Ég fann hvernig ég náði ekki almennilega að hvílast. Svo kom matur um þrjúleytið og loks heimsókn: mamma. Þá kom læknirinn rétt á eftir.
Læknirinn treysti sér til að útskrifa mig. Sýnaræktunin hafði leitt í ljós að það var vírus sem hafði komist inn í mænuvökvann, en ekki baktería. Á þessu væri mikill hættumunur þó að fyrstu einkenni séu mjög svipuð. Vírusinn er þannig að sýklalyf verka ekki á hann. Líkaminn sjálfur yfirstígur hindrunina á viku til tíu dögum. Að 2-3 vikum liðnum ætti ég að vera orðinn fullfrískur. Mér bauðst að útskrifast þegar mér hentaði og mætti þess vegna vera til morguns - að öllu óbreyttu (ekki var beðið eftir rúminu). Mér leist í fljótu bragði vel á að vera til morguns. Um klukkutíma seinna talaði ég við Vigdísi og hún sannfærði mig um að koma heim, enda væru Signý og Hugrún farnar að spyrja um mig og sakna mín og svo ætlaði hún sjálf að dekra við mig og leyfa mér að hvíla mig eins og ég þyrfti. Það virkaði allt ákaflega sterkt á mig svo ég hugleiddi málið og sá í hendi mér hvernig "heimsókn" Jóns Más síðar um kvöldið gæti breyst í skutl heim. Eftir að hafa ráðfært mig við hann sló ég til. Ég meina: Vigdís er jú starfsmaður á deildinni. Það eru ekki allir sem geta farið heim og verið áfram í beinum tengslum við spítalann, ef því er að skipta. Réttlætingin var því tiltölulega einföld. Ég misreiknaði hins vegar úthaldið sem ég hafði enda átti þetta eftir að vinda verulega upp á sig.
Þá hófst mikill vandræðagangur af minni hálfu. Klukkan var tæplega sex og Jón ætlaði að koma í heimsókn upp úr átta. Ég þurfti að tilkynna lækninum um brottförina með einhverjum fyrirvara en náði ekki í starfsmanninn sem sinnti mér sérstaklega, sem hefði átt að vera milliliður í þessum efnum. Hún var fjarverandi nokkra stund við að ná í pitsur fyrir kvöldvaktina. Eftir nokkra bið, þegar maturinn var loks kominn í hús, kunni ég heldur ekki að trana mér fram og trufla starfsfólkið skófla í sig pitsum. Ég hummaði þetta líka hálfpartinn fram af mér vegna þess að ég hafði stuttu fyrr viljað loka að mér og vildi ekki að það liti núna út fyrir að ég væri að útskrifast út af pirringi. Að lokum, þegar kaffistofa starfsmanna geymdi eingöngu yfirgefnar pitsusneiðar, leitaði ég tengiliðinn minn uppi. Ég gætti þess að bera nógu trúverðuga ástæðu um að "Vigdís hafði gert mér tilboð sem ég gat ekki hafnað". Það uppskar smá bros, en var samt eiginlega hálf hallærislegt.
Af hverju þessi vandræðagangur? Jú, sú sem sinnti mér sérstaklega allan þann tíma sem ég lá á deildinni var fyrrverandi nemandi minn frá Hellu. Upphaflega hafði mér brugðið við að sjá hana vinda sér að mér fyrirvaralítið og dæla í mig sýklalyfum. Mín fyrsta hugsun var ósjálfrátt hálf súrrealísk: "Ja, hérna! Ég sem var fyrsti efnafræðikennarinn hennar og nú stendur hún yfir mér og dælir í mig einhverjum efnasamböndum sem ég kann engin skil á. En hvað hlutirnir þróast hratt!". Þar sem ég var vanur að tala við hana sem kennari og hún sem nemandi fannst okkur þessi staða kyndug og það tók heilt eftirmiðdegi að yfirvinna undarlegheitin. Ísinn brotnaði ekki fyrr en ég ávarpaði hana þar sem hún stóð í hvarfi og sinnti öðrum sjúklingi bak við skjóltjald. Bara svona almenn spurning um hvernig væri að vinna hérna og svoleiðis og hún spurði svo til baka hvað ég hefði haft fyrir stafni sjálfur eftir að ég fór frá Hellu. Þá gerðist nokkuð skrítið: Ég þurfti að hugsa mig um til að muna hvað gerðist strax eftir Hellu (og áður en ég kynntist Vigdísi). Það kom hálf vandræðalega út, eins og ég hefði eitthvað að fela. Þá kom allt í einu læknir aðvífandi og rauf samtalið og ávarpaði mig með nýjustu upplýsingar (sem ég man ekki einu sinni eftir). Stuttu síðar var hann farinn og sömuleiðis allir aðrir á bak og burt. Samtalið hélt aldrei áfram þann daginn.
Daginn eftir voru samskiptin takmörkuð og alltaf eitthvað vandræðaleg, af beggja hálfu. Að lokum þegar styttist í brottför hugaði ég að því að kveðja hana sérstaklega, svo það yrði ekki of flókið með "gest" mér við hlið. Kannski til að vinda aðeins ofan af þessum "ókláruðu" samskiptum frá deginum á undan. Þá var ég búinn að pakka saman og tæma herbergið mitt. Var kominn með dótið inn á kaffistofu. Ég sem sagt heilsaði henni eins og úti á götu, í mínum eigin klæðum (ekki hvítklæddur sjúklingur lengur). Þá var eins og samskiptin yrðu fyrst verulega undarleg. Hún hafði sinnt mér allan tíman markvisst og kunnað sitt hlutverk vel en mér fannst hún snarlega breytast í nemanda um leið og ég gerði mig líklegan til að spjalla eitthvað aukalega. Vanlíðanin var augljós og satt að segja veit ég ekki hvor átti þar frumkvæðið að henni. Ég fór að stama einhverju bulli út úr mér. Á endanum kvaddi ég hana eftir gjörsamlega samhengislaust spjall og forðaði mér aftur inn á kaffistofu. Þar beið ég eftir Jóni áfram.
Klukkan átta frétti ég af töfum frá Jóni. Hann beið eftir að Margrét kæmi heim úr göngutúr (var heima með Melkorku) og einn göngufélaganna hafði fótbrotið sig. Ég sagðist bara bíða rólegur. Hlutirnir verða að hafa sinn gang. Á meðan fann ég hins vegar hvað ég var orðinn þreyttur. Áttaði mig á því að ég hafði ekki getað hvílt mig neitt af viti allan daginn og hausverkurinn var farinn að minna verulega á sig. Ég rölti eirðarlaus fram öðru hvoru og mætti starfsfólki sem var frekar hissa að sjá mig því það hélt ég væri farinn. Það var ekki fyrr en tæplega hálf tíu sem Jón gat staðfest að hann væri á leiðinni og þá ákvað ég að hitta hann frammi - fyrir utan deildina. Klukkan var orðin of margt til að spjalla saman inni á deildinni (margir farnir að hvíla sig). Svo var ég orðinn gjörsamlega orkulaus og ekki í neinu sérstöku kaffihúsastuði lengur. Ég læddi mér með mitt hafurtask eftir ganginum og kvaddi látlaust þá sem ég fann. Þeir voru ekki margir. Flestir voru inni á herbergjum að gefa lyf. Mér fannst lítil reisn yfir þessari brottför minni, eins og þetta væri eitthvert laumuspil. Sniglaðist loks út og hitti Jón þar, orðinn örmagna, satt að segja. Gott var að hitta hann en ég hafði óskaplega lítið að segja. Eftir um tíu mínútna spjall ákváðum við að fara vestur í bæ. Þar staldraði hann við heima í aðrar tíu mínútur áður en ég afsakaði mig með þreytu. Leið verulega undarlega með það skilja hann bara eftir í stofunni og þaðan af síður þar sem hann hafði haft fyrir því að skutla mér heim. Hefði verið notarlegra að bjóða upp á heitt te eða eitthvað. Vigdís fylgdi honum eftir á meðan ég lét mig hverfa.
Signý og Hugrún voru steinsofnaðar, enda klukkan orðin rúmlega tíu. Náði ekkert að knúsa þær eins og til stóð. Fór upp í rúm og starði út í loftið. Sá varla svefnherbergið okkar. Fannst útsýnið af herberginu mínu á A7 birtast í hugskotssjónum hvað eftir annað eins og það væri nærtækara og raunverulegra. Augljóslega var ég orðinn of þreyttur þegar ég fór þaðan. Ég fór allt of skyndilega, var illa undirbúinn (of þreyttur í höfðinu til að hugsa skýrt) og hafði hreinlega ekki ráðrúm til að aðlagast heimkomunni. Svaf vægast sagt illa.
Næstu daga átti ég eftir að vera mjög vankaður, bæði út af þessu og vegna þess að þreytan í höfðinu, eftir veikindin, var enn til staðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli