Fyrst ég er farinn að skríða saman (er rétt farinn að geta setið lengi við og skrifað án þreytu) og vika er liðin frá innlögn á spítalann, þá er ekki úr vegi að rifja upp og skrá hjá sér atburðarásina.
Ég var býsna ferskur á föstudaginn fyrir viku en fann fyrir þreytu á laugardag. Vaknaði aumur í baki og með seyðing í höfði. Ég tengdi þreytuna við álag og taldi bakverkinn ástæðu óþægindanna í höfðinu. Var rétt nógu brattur til að fara út úr húsi með bæði Signýju og Hugrúnu. Ég var hins vegar hlédrægur og laslegur að sjá (sögðu menn mér eftir á). Man að ég kom pirraður heim - var þá kominn með hausverk hægra megin - en reyndi að slappa af það sem eftir var dags. Daginn eftir var áfram jafn slappur, fann áfram fyrir eymslum í baki og átti bágt með að liggja á hlið í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Þegar nær dró kvöldi fór seyðingurinn að magnast upp. Ég var enn sannfærður um að bakið væri orsakavaldurinn og tók mér "frí" frá kvöldverkunum og skellti mér í sund. Ætlaði að hrista þetta af mér og mýkja mig upp á ný. Það gekk svo sem ágætlega. Að minnsta kosti leið mér vel í sundi og ég synti bæði hraðar og lengra en ég er vanur og ég fann nokkuð snarlega að bakið var mun styrkara á eftir. Eftir góðan heitan pott og gufubað kom ég býsna mjúkur heim en samt örlaði áfram á hausverknum. Við sátum saman yfir sjónvarpinu (Sommer - snilldarþættir) og ég náði að gleyma mér stundarkorn en fann fljótlega er ég reisti mig við að hausverkurinn var kominn yfir í bæði heilahvelin, með dúndrandi hjartslætti. Mér var hætt að lítast á blikuna því bakið var núna í góðu standi (það var þá varla ástæðan) og ég er alls ekki vanur að fá hausverk yfir höfuð (afsakið orðaleikinn). Þá hvatti Vigdís mig til að mæla mig. Ég fussaði eiginlega yfir því enda fannst mér ég ekkert "lasinn" en reyndist svo vera með nokkrar kommur (37,8 gráður). Þá var ljóst að eitthvað væri í ólagi. Klukkan var tæplega ellefu (sunnudagskvöld) svo við frestuðum þess að ég hreinsaði mig af þessu með góðum nætursvefni, annars færi ég til læknis strax í bítið. Nóttin reyndist síðan ömurleg. Hitinn hækkaði (38.7) og hausverkurinn versnaði við það eitt að liggja út af. Tímunum saman átti ég erfitt með að festa svefn. Að morgni fórum við Vigdís saman, fyrst með Signýju og Hugrúnu (í leikskólann) og því næst fór ég til heimilislæknis. Það eitt að renna yfir hraðahindranir var svo sársaukafullt að ég lokaði augunum (undir stýri, eins skuggalega og það hljómar). Ég fór einn til læknisins og skildi bílinn eftir hjá heilsugæslunni. Hann átti ég ekki eftir að stíga upp í á næstunni. Eftir langa og ítarlega læknisskoðun (þar sem hnakkastífni, jafnvægi og ljósfælni var meðal annars skoðuð) var ég sendur með leigubíl upp á spítala. Þar hófst önnur og lengri atburðarás (sem tekin verður fyrir í næstu færslu).
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli