1. dagur á spítala:
Þegar ég var kominn niður á spítala, með hraði í leigubíl, fór ég inn á bráðamótttöku. Þar var ég skoðaður aftur með tilliti til ljósfælni og hnakkastífni, en það eru tvö af helstu einkennum bráðaheilahimnubólgu. Sú athugun benti til að annað hvort var um vægt tilfelli að ræða eða þá að ferlið væri á byrjunarreit enn þá. Ég var ósmeykur vegna þess að ég hafði það á tilfinningunni að við Vigdís værum snemma á ferðinni og hefðum staðið vaktina vel. Fljótlega var ég beðinn um að fara úr mínum eigin fötum og skipta yfir í spítalaföt. Það fannst mér vera sálrænn vendipunktur því þá gerði ég mér grein fyrir að ég yrði þarna að minnsta kosti yfir nótt. Þetta yrði í fyrsta skipti sem ég legðist inn á spítala á ævinni og tilhugsunin um að verða "spítalamatur" eða "eign spítalanna" var mér framandi. Sú hugsun staldraði reyndar ekki lengi við því fjölmargir stafsmenn sinntu mér og ég var ég skoðaður og "endurskoðaður" í bak og fyrir - blóðþrýstingur, blóðprufur og mikið rýnt í augun. Þau tóku sýni úr mænuvökva (þá hringaði ég mig í kuðung og fékk mænurótardeyfingu áður en sýnið var tekið) og síðan tekin sniðmynd af heila. Mænuvökvinn leit vel út en ræktun leiddi hins vegar fljótt í ljós aukinn fjölda hvítra blóðkorna (skýrt merki um sýkingu). Hvers eðlis sýkingin væri (bakteríur eða veirur) var ekki ljóst enn þá en það kom að minnsta kosti ekki gröftur út. Heilasniðmyndin kom hins vegar vel út (við þær niðurstöður var ég einhverra hluta vegna smeykari). Fór á "skammerinn" (skammverudeild) og var þar góða stund. Hitinn var um miðjan daginn kominn upp í 39 gráður. Mátti ekki standa á fætur og var fljótt orðinn þreyttur í baki á ný (endurnýjun sundsins dugði ekki lengra en þetta). Fékk fullt af gestum, og mér þótti mjög vænt um þann stuðning sem ég fann fyrir, en þess á milli stytti ég mér stundir með galdratækinu iPod sem ég hafði nýlega hlaðið. Ég gerði mér eiginlega ekki almennilega grein fyrir alvarleika málsins á þessari stundu og frétti af miklum áhyggjum aðstandenda ekki fyrr en eftir á. Fór um kvöldið upp á gjörgæsludeild og var tengdur við alls kynst tæki og tól. Blóðþrýstingurinn var mældur vélrænt á korters fresti auk þess sem ég var tengdur hjartalínuriti. Það átti sko að fylgjast með öllum breytingum jafn óðum. Var mjög "víraður" og það var satt að segja óþægilegt að liggja svona, endalaust stunginn fyrir blóðprufum. Þorði ekki að hrefa mig frjálslega og bakverkurinn ágerðist við hreyfingarleysið. Var einn í herbergi og náði að sofna öðru hvoru. Svaf hins vegar ekki vel um nóttina. Lá þá í svitakófi um tíma, enda skilst mér að hitinn hafi þá náð 40 stigum. Hausverkurinn var alltaf til staðar og reyndar fann ég enn meira fyrir þreytu bak við augun þannig að ég gat ekki með góðu móti skimað kringum mig eða teygt mér um öxl (átti í basli með að finna bjölluna á tímabili sem lá við hliðina á höfðinu). Þetta var óþægileg nótt en andlega var ég samt afslappaður og óhræddur því mér fannst hausverkurinn ekki vera að ágerast neitt.
2. dagur á spítala
Um morguninn var mér boðið í sturtu. Venjulega er um þvottapokahreinsun að ræða á þessari deild en ég treysti mér til að standa. Þau ráku eiginlega upp stór augu sem unnu á þessari deild því þau eru ekki vön því að sjúklingar gangi um gjörgæsludeildina. Ég var beinlínis stoppaður af þegar ég reyndi eftir fremsta megni að gera bakæfingar vegna eymslanna í bakinu (að hluta til mænustungunni að kenna). Þá var mér gert að hvíla mig með þeim orðum: "Þú átt að hvíla þig - þú SKALT hvíla þig". Ein hjúkunarkonan samsinnti mér í því að oft væri spítalalegan sem slík jafn erfið og sjúkdómurinn og að maður þyrfti eiginlega að vera mjög hraustur til að leggjast inn, eins þversagnarkennt og það nú hljómar. En ég var orðinn býsna brattur þegar Vigdís kom til mín rétt fyrir útskrift af gjörgæslunni. Þá stóð til að skrifa mig inn á A7 en þar er hún einmitt sjálf að vinna. Reyndar kom ekki til þess að hún sinnti mér því hún var í nokkurra daga vaktaeyðu. Í staðinn sinnti hún Hugrúnu og Signýju heima af alúð og heimsótti mig bara yfir daginn (á meðan leikskólinn stóð sína pligt) þannig að þær fyndu ekki fyrir neinum óþægindum eða mikluðu fyrir sér fjarveru pabba síns. Þær eru reyndar svo læknavanar að þeim fannst ekkert mikið til þess koma að ég væri "hjá læknunum". Það var notalegt að finna fyrir því öryggi. Á deildinni hennar Vigdísar þekki margt starfsfólk sem tók auðvitað mjög vel á móti mér. Ég hef alltaf komið upp á deild til hennar öðru hvoru gegnum tíðina þannig að ein þeirra fann sig knúin til að spyrja mig: "Af hverju ertu svona klæddur?" og vísaði þá að sjálfsögðu í spítalaklæðin. Annars er mjög létt andrúmsloft á þessari deild. Mér fannst stundum þegar ég læddist fram og horfði út ganginn til beggja hliða eins og ég væri staddur um borð í lest og væri að horfa á brautarpallinn. Mikið líf og starfsemi sem blasti þar við. Svo lagðist maður oftast aftur og reyndi að hvíla sig. Það var nefnilega ekkert smá slor útsýnið sem ég hafði af níundu hæð og gat fylgst náið með því hvernig þokuslæðingurinn lagðist yfir hverfin, hægt og rólega. Mér leið samt hálf undarlega á þessari deild af því ég var allur að frískast, fær um að rölta að vild (ekki lengur tengdur við tæki og tól) og það hvarflaði að mér á tímabili að ég væri boðflenna. Of frískur til að vera á spítala. Hitinn minnkaði jafnt og þétt og um kvöldið var ég orðinn hitalaus og ég mjög vel hvíldur. Ég fékk náttslopp og lesefni frá mömmu og Vigdísi. Hún leiddi mig í allan helsta sannleika um starfsemina á deildinni og merkti vandlega við grænmetisfæði á matarlistanum. Það tryggði mér stórgóðan mat allan tímann sem ég átti eftir að dvelja á deildinni, reglulega á þriggja tíma fresti. Í hönd átti eftir að fara nokkuð notarlegur tími afþreyingar og slökunar, sem ég greini aðeins betur frá næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli