sunnudagur, mars 01, 2009

Þroskaferli: Óvæntar athugasemdir og pælingar Signýjar

Ég fór út í búð með þær systur Signýju og Hugrúnu. Signýju varð starsýnt á brunahana og spurði mig hreint og beint hvað þetta nú væri. Ég bar hægt fram orðið "brunahani" og ég sá hvernig hún kímdi við (henni fannst kannski skrítið að tengja þetta við "hana" og hélt eflaust að ég væri að stríða henni eða bara að ruglast). Síðan útskýrði ég: "Sko, þetta er fyrir slökkviliðsmennina, eins og í púslinu (hún á púsl með eldsvoða og björgunaraðgerðum). Þeir koma og opna hérna með því að skrúfa og tengja slönguna við og ná þarna í vatn..." einhvern veginn svona hljómaði þetta. Hún lét þar við sitja. Nokkrum mínútum síðar sagði hún : "Sjáðu, pabbi, annar krani!". Krani? Mér fannst þetta svolítið fyndið og fór að pæla: Var hún að einfalda flókið orð? (Bruna-hani = krani) eða lagði hún djúpan skilning í fyrirbærið af því að brunahaninn virkar í raun eins og krani? Það er pæling út af fyrir sig.

Á leiðinni heim úr búðinni, klyfjaður grænmeti sem ég ætlaði að matbúa þegar við kæmum heim, tók Signý upp sæta kartöflu. Þær fengu að handleika alls kyns grænmeti (og smökkuðu meðal annars vorlauk, sem leit út fyrir að vera "gras"). Signý var hins vegar mjög upptekin af sætu kartöflunni og sagði svo eftir dágóða stund: Pabbi, þetta er eins og kúkur! Þegar ég horfði á kartöfluna úr fjarska gat ég vel skilið samanburðinn en lagði strax áherslu á það að hún væri hins vegar mjög hörð. Síðan veltum við því fyrir okkur hvað væri hart og hvað væri mjúkt þannig að umræðan beindist eiginlega í aðra átt út frá þessari óvæntu athugasemd.

Sjá myndir af sætum kartöflum hér.

Engin ummæli: