þriðjudagur, mars 17, 2009

Þroskaferli: Fastir frasar Hugrúnar

Um daginn fórum við á foreldrafund á leikskólanum vegna Hugrúnar (á morgun verður annar fundur á miðbæ vegna Signýjar). Það var ákaflega vel látið af hennar líðan og frammistöðu. Hún er hörð af sér og lætur engan vaða yfir sig en sem betur fer er hún ekki yfirgangssöm heldur. Svo er hún er sérlega dugleg að tala og endurtaka það sem fyrir henni er haft en það sem vakti helst undrun þeirra á Norðurbæ var hversu öruggt og rétt grip hún hafði þegar hún hélt á blýanti. Hún heldur á honum nákvæmlega eins og á að gera og er fyrir vikið fær um að dútla við alls kyns smáatriði í allri myndsköpun.

Nú eru minniháttar setningar að koma í hrönnum. Hún er farin að tala í skeytaformi, eins og: "Mamma lúlla" eða "Systir og mamma lúlla saman". Áberandi eru fastir setningarfrasar, eins og "meddisig" (ég meiddi mig) sem tekur á sig ýmsar myndir. Hún segir til dæmis "Meddisig húfuni" þegar ég set hana í bílstólinn en rek höfuðið laust í dyrakarminn (þá er hún nefnilega með húfu). Hún segir líka: Millimmi (hljómar svipað og "Villimey") og þýðir "Ég vil ekki". Oft kemur þessi frasi fyrir með andlagi, þ.e. því sem hún vill ekki, sbr. "Millimmi mókkin" (Ég vil ekki mjólkina) eða "Millimmi meira" eða kannski "Millimmi bílinn" (Ég vil ekki fara í bílinn). Svo er það hið einstaka "Da minn" sem er einföldun á því sem Signý segir þegar hún segir "Davurinn minn" (Stafurinn minn). Signý er enn mjög upptekinn af stöfum og er fljót að koma auga á sinn eigin staf út um allt. Þetta heyrir Hugrún hana því segja mjög oft og í hvert sinn sem hún sér einhvern staf þá bendir hún og segir: "Da minn". Kannski heldur hún að allir stafir heiti Da´minn - eða að hún eigi alla stafi (eins og Signý virðist gera). Ég er byrjaður að leiðrétta þetta og eignaði ýmsa stafi öðrum en henni. Kannski fer hún að þekkja "H"ið sitt fljótlega frá öðrum stöfum.

Að lokum verð ég að taka fram hvað Hugrún er dugleg að telja. Hún er augljóslega í þulunámi. Hún þylur talnarununa eins og vera ber. Hún er ónákvæm í byrjun og á það til að stökkva yfir tölur en er hins vegar furðunákvæm þegar hún er komin upp í sex og yfir, þá telur hún af öryggi: sex, sjö, átta, níu, tíu, ellefu, tólf og jafnvel lengra (stoppar þó oftast hér). Í kjölfarið, ef hún reynir að telja lengra, þá heyrist eitthvað óljóst: Dettán, duttán, dattán........og svo framvegis. Þetta rennur allt saman en hún virðist hins vegar átta sig vel á að hér kemur runa sem endar á -tán. Núna áðan var ég að skoða með henni talningabók og þá fannst mér ég heyra hana byrja, upp úr þurru, að telja á "áttán" (hún byrjar stundum að telja ofarlega) og mér fannst mjög flott að heyra hana segja "nittán" nokkuð skýr og hlustaði svo vandlega eftir því hvort hún gæti nú botnað þetta - og ekki stóð lengi á því: "Duttugu".

Engin ummæli: