sunnudagur, desember 21, 2008

Upplifun: Síðasti vinnudagurinn fyrir jólafrí

Nú er ég kominn í jólafrí sem stendur yfir í rúmar tvær vikur. Fyrsti vinnudagur eftir áramót verður fyrsta mánudaginn - kennsla hefst þó ekki af kappi fyrr en daginn eftir. Svona starfsdagar, eins og mánudagurinn, eru nauðsynlegir stuðpúðar á milli hvíldardaga og sjálfrar hringiðunnar.

Síðasti starfsdagur fyrir jól var um margt eftirminnilegur. Við slúttum alltaf með helgileik á BUGL-inu. Þá koma krakkarnir saman og leika Jósep og Maríu á leið til Betlehem ásamt þrem hirðingjum og vitringum. Við höfum komið okkur upp ágætu safni leikmuna gegnum tíðina svo þetta lítur allt saman ágætlega út. Helgileikurinn er eftirsóknarverð afþreying á BUGL-inu og vekur alltaf lukku, enda nemendur misjafnlega vel með á nótunum - hver með sína sérstöðu.

Í þetta skiptið var helgileikurinn frábrugðinn því sem menn áttu að venjast því sjálfur kennarinn Þorsteinn fann sig knúinn til að taka þátt. Vegna forfalla vantaði í hlutverk engilsins. Það er lítið hlutverk sem felur í sér það eitt að vera uppáklæddur hvítum kufli, með baug á kollinum, og birtast hirðingjunum. Sögumaður fer með allan texta svo ég gat bara "svifið" mjúklega inn á sviðið, staðið teinréttur, hátt yfir litlu nemendum okkar, og opnað faðminn, á meðan sögumaður las:

"Verið óhræddir, því sjá, frelsari er fæddur....."

Þessu höfðu áhorfendur einkar gaman af. Einn þeirra vatt sér að mér og sagði: "Þetta er þinn fyrsti leiksigur". Tvær konur, önnur á mínum aldri og hin eldri, sögðust hafa "vöknað um augun og fengið fyrir hjartað". Auðvitað er þetta allt orðum aukið og sagt í gamni, en engu að síður átta ég mig á því eftir á hvað það er heppilegt að ég skyldi vera í þessu hlutverki. Annars vegar var ég snyrtilega alskeggjaður og virkaði því eins og helg vera í anda frelsarans sjálfs. Svo er ég mun hávaxnari en nemendurnir og virkaði því meiri um mig og áhrifameiri en "hinar dauðlegu verur" sem ég stóð yfir.

Eftir uppfærsluna var loksins haldið nett jólaball með jólasveini. Að auki fengum við kennarar að gjöf fallega ávaxtakörfu frá Brúarskóla í kveðjuskyni (við á Dalbrautinni tilheyrum Brúarskóla). Þar voru vínber, epli, mandarínur og kókoshneta! (sem mér tókst með herkjum - en lagni - að opna í gær eftir að hafa vandlega ráðfært mig við bókina hennar Nönnu Rögnvaldar). Að lokum fórum við kennarar saman á Sólon og borðuðum saman hádegismat og skiptumst á jólakveðjum.

Engin ummæli: