mánudagur, október 20, 2008

Upplifun: Sinfóníur Síbelíusar

Ég geri það ekki endasleppt í menningarlífinu þessa dagana. Á meðan Galapagosfyrirlesturinn frá því í fyrri viku var enn í fersku minni skelti ég mér á tvenna sinfóníutónleika. Sinfóníuhljómsveitin var nefnilega með Síbelíusarmaraþon (svo maður orði það á íþróttamáli). Síbelíus samdi sjö sinfóníur og einn fiðlukonsert á langri starfsævi (ásamt ýmsu öðru). Þetta var allt flutt svo að segja í einum rykk á þrennum tónleikum, frá fimmtudegi til laugardags. Þar sem ég er mikill aðdáandi Síbelíusar (og hef verið frá því ég uppgötvaði sinóníurnar hans fyrir tæpum tuttugu árum) gat ég ekki látið þetta fram hjá mér fara. Fékk Villa bróður til að fara með mér á fyrstu tónleikana (fyrsta og þriðja sinfónían plús konstertinn) og fór einsamall á aðra tónleikana (önnur og fjórða sinfónían). Þriðju tónleikunum sleppti ég hins vegar vegna anna, en var svo sem búinn að fá vænan skammt og þurfti ekki meira í bili.

Tónleikarnir voru báðir á köflum magnaðir en misjafnir. Konsertinn fannst mér til dæmis ekki vel heppnaður. Fannst vanta bæði meiri ruddaskap og nákvæmni í flutninginn. Sinfóníurnar voru hins vegar að mestu leyti glæsilega fluttar. Einn og einn kafli virkaði eitthvað þreyttur (mikið álag á hljómsveitinni að æfa þetta allt upp) og kom út sem skortur á fínu blæbrigðunum. Inn á milli voru hins vegar svo glæsilegir kaflar að ég man ekki eftir að hafa heyrt þá flottari. Sérstaklega átti það við um lokakafla annarrar sinfóníunnar (seinna tónleikakvöldið). Sú sínfónía er eitt vinsælasata verk Síbelíusar og er einn af hápunktum rómantíska tímans í klassíkinni. Lokakaflinn er einstaklega lagrænn og ástríðufullur og sínfóníuhljómsveitin gerði honum svo góð skil að ég var hreinlega vankaður eftir tónleikana. Ég hreinlega vafraði um í myrkrinu þegar ég gekk út. Þvílík tónlist, þvílík hafbylgja af hamingju! Verkið var samið á Ítalíu, en þar dvaldi Síbelíus fyrir rétt rúmlega hundrað árum til að rífa sig upp úr þunglyndi. Við njótum afrakstursins enn þann dag í dag, sem er ekkert nema forréttindi og munaður á svona dimmum tímum.

Engin ummæli: