þriðjudagur, október 14, 2008

Daglegt líf: Í skugga kreppunnar, seinni hluti

Á fimmtudaginn var náði samfélagið botninum með lögsókn Breska ríkisins yfir höfði sér. Vorum við að missa allt frá okkur? Var raunveruleg hætta á því að við misstum sjálfstæði okkar? Við Jón Már ákváðum að bregða okkur út úr þessari þrúgandi umræðu og kíktum á fyrirlestur ásamt heimildarkvikmyndarsýningu um Ekvador og Galapagoseyjar (sem tilheyra Ekvador). Þetta er liður í hátíðahöldum í Kópavogsbæ þar sem veglega er hampað einni þjóð á hverju ári í formi listviðburða af ýmsu tagi. Ekvador var þemað í ár.

Reyndar var um nokkra fyrirlestra að ræða og voru þeir allir áhugaverðir, hver á sinn hátt. Ari Trausti er með afbrigðum frambærilegur og öruggur fyrirlesari, enda einn okkar færustu fræðurum um náttúru og ferðalög. Hann sagði frá landinu - bæði eyjunum og meginlandinu, og þar kom fram ansi athyglisverð staðhæfing um að Ekvador sé það land í heimi sem búi yfir mestri fjölbreytni lífríkis á jörðinni (og þá var ekki tekið tillit til stærðar). Landið slær meira að segja Brasilíu léttilega út - án þess að taka Galapagos með í reikninginn. Ástæðan er sú að landið nær ekki aðeins yfir regnskógasvæði heldur líka fjölbreytt hálendi (tvo fjallgarða og hásléttu þar á milli) og Kyrrahafsströndina að auki (sem býr yfir allt öðruvísi lífríki). Í þessum samanburði við önnur lönd var Indónesíueyjaklasinn hugsanlega undanskilinn, en það gerir staðhæfinguna ekki síður merkilega þar sem landið er mjög lítið (aðeins þrisvar sinnum stærra en Ísland).

Hinir fyrirlestrarnir voru líka fínir. Innblásinn fyrirlesari frá Ekvador, fræðimaður á sviði sjálfbærrar ferðamennsku, sagði frá landi sínu frá ýmsum hliðum. Svo var ágætur fyrirlestur um lífríki Galapagos sem íslenskur líffræðingur tók saman eftir dvöl þar. Mér fannst hvað merkilegast hvað lífverur eyjanna eru spakar, samkvæmt lýsingunni. Ekki gerist það hér á Íslandi að fálki sest á grein tvo metra í burtu frá manni og virðir mann varla viðlits?

Að lokum var sýnd mynd um Ekvador og Galapagos. Hún var reyndar ekki eins vönduð og ég hafði gert mér vonir um. Hún reyndist vera aðeins um tuttugu mínútur að lengd og var eins konar samanklippt túristamyndband, með þeim takmörkuðu gæðum sem tilheyra. Hins vegar var myndin markviss og skilaði sínu prýðilega þegar upp var staðið og mörg skotanna voru mjög flott. Eiginlega var þetta eins og að horfa á Dogma mynd, með kostum þess og göllum. Manni fannst maður vera einn af hópnum sem þarna var staddur úti og sá landið út um rútuglugga eða af bátsþilfari. Lífríkið virkar þess vegna raunverulegra og nærtækara. Náttúruleg hljóð fengu sem betur fer að njóta sín þegar kvöldkyrrðin í Amazon var kvikmynduð af verönd kofans sem hópurinn gisti í. Mikið held ég að það sé magnað að vera staddur þar.

Hvíldin í Salnum var nauðsynleg og drjúg, enda gættu fyrirlesarar þess að minnast ekki á ástandið í samfélaginu eða peninga yfir höfuð. Eftir sýninguna fórum við hins vegar aftur út í spennuþrungið loftið utan Salarins. Þá var stutt í kvöldfréttirnar.

Engin ummæli: