fimmtudagur, október 23, 2008

Fréttnæmt: Leikskólaaðlögun

Aðlögun Hugrúnar gengur samkvæmt vonum. Hún tekur þessari nýbreytni allri með stóískri ró. Hún arkar bara beint af augum og skoðar það sem fyrir augu ber. Það er svo margt skemmtileg að gera í leikskólanum. Það eru ekki endilega hin hefðbundnu leikföng sem heilla. Skemmtilegast er að þramma fram og til baka á mjúkri dýnu, skoða sjálfa sig í risastórum spegli eða rúlla á undan sér bolta á stærð við hana sjálfa. Á morgun hvílist hún eftir hádegi í fyrsta skipti á deildinni, en hingað til hefur hún bara verið fram að hádegi, og aukið við sig í smá skömmtum. Á mánudag verður hún svo fram að kaffi (og ég sit með henni í kaffitímanum) en daginn eftir er hún sjálf fram yfir kaffi, og ég sæki snemma. Á miðvikudag verður hún loks fullnuma í leikskólafræðunum.

Fullt af orðum streyma frá Hugrúnu þessa dagana. Eitt það nýjasta kom í gær er hún virti fyrir sér nýfallna fönnina allt í kring. Hún benti á þetta fyrirbæri og sagði: "Sjónni" (með blæstu Þ-hljóði í stað S-ins). Í matnum á leikskólanum sagði hún "glas" í fyrsta skipti í mín eyru og fínpússaði framburðinn jafnt og þétt frá "gaþ" og yfir í að nota fallegt "L". Núna talar Hugrún mikið um "mús" og "missa"(kisa) (með sama S-framburði og áður). Þegar hún minnist á Mikka mús, hins vegar, slær þessu tvennu saman í "missa mús".

Þegar Hugrún verður eins og hálfs (eftir rúma viku) stefni ég að því að taka saman yfirlit yfir orðaforðann sem safnast hefur saman undanfarið. Vonandi næ ég hins vegar fyrst að renna yfir sérstæðan framburð Signýjar, áður en hann heyrir fortíðinni til, ásamt uppáhalds frösum hennar.

Engin ummæli: