Ég er búinn að vera í einhverjum undirmeðvituðum tungumálapælingum að undanförnu. Núna í vikunni vaknaði ég til dæmis með skringilegt orð í kollinum. Það er sagnorðið að "sjittna". Meira að segja á meðan ég svaf fannst mér orðið í meira lagi undarlegt en jafnframt stórstkemmtilegt og vaknaði með bros á vör. Orðið vísar í tvö önnur sagnorð: að hitna og svitna. Það á við um þá undarlegu líðan sem yfirtekur líkamann þegar maður skyndilega uppgötvar einhverja alvarlega yfirsjón og frýs og getur ekki annað en misst út úr sér útlensku: Sjitt. Til dæmis þegar maður er kominn af stað í vinnuna og man allt í einu að það gleymdist að slökkva á kaffikönnunni eða eldavélinni. Þá sjittnar maður svo um munar. Einnig þegar maður lendir í lífsháska og gerir sér grein fyrir að þetta gæti verið endapunkturinn. Þá er ekkert hægt að gera annað en "sjittna" og vona svo það besta.
Annað orð datt mér óvænt í hug um daginn. Þá rabbaði ég við náunga sem kvartaði undan því að vera eitthvað orkulaus. Ég vísaði þá til veðurlagsins að undanförnu, sem hafði verið þoka og dumbungur, og stappaði í hann stálinu með því að segja að þessa dagana væru allir meira eða minna "mollaðir". Þetta er ekki tónfræðihugtakið "moll" (sbr. dúr og moll) þó það vísi reyndar í depurð og orkuleysi líka. Nei, þetta er borið fram með hörðu LL-hljóði. Það er mollan úti sem dregur stundum úr manni orku og veldur þessu sleni eða sinnuleysi og hindrar í leiðinni alla framkvæmdagleði. Þegar maður gerir sér grein fyrir því að veðrið hafi bein áhrif á líðanina er mun auðveldara að sætta sig við að vera "mollaður". Þá er betra að setja sig bara í aðrar stellingar og sinna minna krefjandi verkefnum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli