þriðjudagur, janúar 01, 2008

Þroskaferli: Klapp (og áramótakveðja)

Við vorum að fagna glæsilegum sprengingum fyrr í kvöld og hvöttum Signýju til að klappa með, til að undirstrika að þetta væri ekkert til að óttast, þrátt fyrir lætin. Hún tók þessu vel og talaði mikið um "rakettur og bang". Virtist heilluð. Til að Hugrún yrði ekki útundan sýndum við henni í leiðinni lauslega hvernig á að klappa. Hún hafði að sama skapi gaman af því.

Þetta var fyrr í kvöld, fyrir skaup, og við Vigdís og stelpurnar vorum hjá mömmu og pabba í mat. Fórum heim fyrir tíu og horfðum á skaupið hér heima. Síðan byrjuðu lætin á ný. Signý var full áhuga og leitaði að besta útsýninu að innan. Fyrir framan Hugrúnu klappaði hún af hrifningu á ný. Hugrún kannaðist eitthvað við þetta núna og prófaði að klappa með. Fyrst var það varfærnislegt eins og til að sjá hvort lófarnir pössuðu saman. Eftir nokkrar mínútur var hún farin að klappa af öryggi og kampakát.

Tímasetningin er skemmtileg. Ekki bara áramót heldur er hún upp á dag átta mánaða (2/3 árs). Flott hjá henni. Við óskum ykkur sem sagt öllum gleðilegs nýs árs með lófaklappi í ár, öll sem eitt. Vonandi verður 2008 gjöfult ár fyrir sem flesta.

Engin ummæli: