Ég lét gera við kúplinguna á bílnum í gær. Það fór vel, viðgerðin sjálf það er að segja, en ég upplifði mig sem glæpamann miðað við atburðarásina sem fór fram.
Ég hringdi í náunga á sunnudaginn sem þekkir Suzuki bíla út og inn. Hann er líka góðkunningi pabba og hefur oft gert við bílinn fyrir hann (pabbi á sem sagt bílinn þó hann sé dags daglega mín megin). Ég hafði sjálfur ágæta reynslu af manninum sjálfur. Hann veit greinilega sínu viti. Þegar ég náði í hann leist honum ágætlega á málið en bað mig um að hringja í aðra staði fyrst og láta þá gera mér tilboð, tala síðan við sig eftir á. Á mánudaginn í hádeginu hringdi ég aftur og sagði að vinnan ein og sér kostaði 60-70 þúsund (og þá á eftir að kaupa kúplingu sem kostar a.m.k. 20 þúsund). Þetta yrði upp undir 100 þúsund kall (þeir smyrja alltaf einhverju ofan á). Hann sagðist geta verið eitthvað ódýrari en það en ætlaði að tékka á félaga sínum (þetta er tveggja manna verk) og athuga hvort hann fyndi ekki góða kúplingu (það er gæðamunur og sú sem hann var með í huga kostaði 35 þúsund og er mýkri en sú sem hinir hefðu látið í bílinn). Þetta var því enn í lausu lofti og við töluðum okkur saman um að ef af þessu yrði myndi viðgerðin a.m.k. ganga fyrir sig í vikunni, að kvöldi til eftir vinnu. Ég ætlaði að hafa samband í hádeginu daginn eftir til að skoða stöðuna þá.
Allt í góðu enn þá.
Síðan er ég heima um kvöldið í ró og næði þegar hann hringir óvænt og rétt svo segir til nafns, en bætir svo við: "85 þúsund kall allt verkið, annað kvöld, klukkan fjögur! Hvernig líst þér á það?" Mér var hálf hverft við því aðdragandinn var svo stuttur og hann snubbóttur í tali. Mér varð aðallega hugsað til þess hvort ég væri eitthvað bundinn eða hvort ég þyrfti á bílnum að halda. Peningana átti ég í banka, og margfalt það. Ég var ekkert bundinn svo ég sagði með semingi að þetta gengi ágætlega upp. Hann útlistaði þá hvar þetta væri til húsa (sem var í nágrenni við mig, í göngufæri, gat ekki verið heppilegra rétt eftir vinnu) - og svo var samtalinu lokið nokkuð snögglega.
Daginn eftir var ég frekar illa sofinn, þurfti að leggja mig í hádeginu (í stað þess að ná í pening, enda var ég með millifærslu í huga allan tímann) og var bundinn vinnu þar til ég rétt náði að sækja Signýju fyrir fjögur. Var kominn heim fimm mínútur í. Þá gríp ég í tómt. Vigdís ekki heima, sem er óvenjulegt. Hún hafði fengið far í Kringluna með Hugrúnu og var þar í góðu yfirlæti. Ég hafði ekki lagt áherslu á það við hana að vera heima um þetta leytið svo ég þurfti að klæða Signýju aftur í útifötin. Úti kyngdi niður snjónum svo það tók sinn tíma að klæða hana vel (og hún byrjuð að suða um mjólk, sem hún fær yfirleitt við heimkomu). Þá hringdi síminn. Klukkan var fimm mínútur yfir og náunginn var í símanum: "Ertu ekki að koma?" sagði hann með þjósti. Ég tuldraði eitthvað á móti um að ég hefði óvænt tafist út af.... (ég held ég hafi ekki náð að minnast á Signýju)... þá fannst mér hann segja "Ég er fyrir utan" og áður en ég næ að spyrja hann út í það hvar, nákvæmlega, þá er samtalinu slitið. Aftur náði náunginn að fipa mig verulega. Signýju leið ekki með þessa óvissu, að fara aftur út strax, vera hálfklædd í útigallann dágóðan tíma, gólfið blautt (og hált) og hún þyrst. Ég velti því fyrir mér andartak hvað maðurinn hefði nákvæmlega sagt á meðan ég smeygði Signýju í stígvélin. Þá ákvað ég að kíkja út og sé að hann bíður þar óþolinmóður í bílnum sínum.
Þá átta ég mig á því að ég er búinn að ráða til mín menn í vinnu! Reyndar fannst mér þessi óþolinmæði undarleg, en samt, þá fá þeir ekki borgað á tímann (hangs), heldur verkið og það er ókurteisi af mér að vera ekki mættur á umsömdum tíma.
Ég fálma höndunum vandræðalega og reyni að útskýra að það hefði bara komið upp þessi óvænta staða og að ég get verið kominn af stað eftir 2-3 mínútur (leiðinlegt að útskýra sig svona). Hann ákveður þá að aka af stað og bíða eftir mér hinum megin. Hann var eitthvað stressaður.
Ég fór fljótlega á eftir honum, með Signýju í bílnum og snjóþotu (þannig myndum við fara heim aftur). Mér hafði ekki gefist tími til að taka til í bílnum (leiðinlegt). Ég rétt náði að losa mig við það stærsta, eins og bílstól Hugrúnar og kerru sem alltaf er höfði í skottinu. Kerran fór bara á bólakaf í næsta skafl. Nú var ég orðinn stressaður.
Þetta var ekki góð byrjun, og átti bara eftir að versna.
Meira seinna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
spennandi. bíð eftir framhaldi!
kv
JMH
Skrifa ummæli