þriðjudagur, janúar 29, 2008

Þroskaferli: Dagbók Gulla?

Ég heyrði Signýju segja "dagbók Gulla" um daginn þegar ég var að baða hana. Mér hlaut að hafa misheyrst því þetta stóðst engan veginn, enda veit hún ekki hvað dagbók er og þekkir engan Gulla heldur. Ég hlustaði betur eftir því sem hún sagði: "Dabógulla" það fór ekki á milli mála. Hún sagði þetta nokkrum sinnum skýrt og horfði á mig spyrjandi eins og ég ætti að vita hvað þetta væri. Ég hugsaði þá til baka og mundi eftir því að um helgina blés sjampóbrúsinn myndarlegri sápukúlu í baðið til hennar. Eftir það hef ég ekki mátt baða hana án þess að framkalla góðan skammt af sápukúlum, henni til óblandinnar ánægju. Í sumar fór hún nefnilega á mis við sápukúluleiki, vegna veikindanna. Við höfðum meira að segja keypt sápukúlustauk (sem var notaður bara einu sinni).

Framburður Signýjar á orðinu "sápukúla" er nokkuð lýsandi fyrir málstöðu hennar. S-ið lýtur í lægra haldi fyrir D-i. Hún biður mig til dæmis um "dala" þegar hún vill "Svala" og segir enn "Diddí" fyrir Hugrúnu (þ.e. "systir"). Einnig hefur F-ið reynst nokkuð erfitt og aftur notast hún við D-ið óspart í staðinn. Fíll verður díll og fugl verður dutl. Ég ætla að gefa þessu sérstakan gaum næstu daga og skrá niður framburð Signýjar á algengustu orðum. Ég segi því óhikað: Meira um þetta seinna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

...please where can I buy a unicorn?