þriðjudagur, janúar 08, 2008

Daglegt líf: Kvöldbrölt Hugrúnar

Annar hluti "veikindaannáls" lætur örlítið bíða eftir sér. Hugrún hefur verið að éta upp allar kvöldstundir hjá okkur að undanförnu þannig að ráðrúm til að skrifa hefur ekki verið til staðar (Núna er ég til dæmis í vinnunni og get því látið slag standa með þetta stutta innskot).

Við veltum því fyrir okkur hvað gæti verið að. Hugrún vill einfaldlega ekki sofna á kvöldin (en er mjög morgunsvæf hins vegar). Jafnvel þó hún lognist út af um tíuleytið, rétt eftir að Signý sofnar, þá vaknar hún eins og klukka eftir hálftíma og virðist hafa orku næstu þrjá til fjóra tímana í að orga. Það er borin von fyrir okkur að reyna að sofna fyrir miðnætti, og treystum ekki á djúpan nætursvefn fyrr en upp úr tvö, hálf þrjú. Reyndar er Hugrún síður en svo andfélagsleg, ef ég má nota það orð, því ef maður tekur hana upp og leyfir henni að vera með okkur frammi þá unir hún sér vel (tekur jafnvel kraftmiklar leikfimisæfingar á gólfinu af kæti). En þess á milli sýnir hún raunverulega vanlíðan, jafnvel í stofunni, og er nær óhuggandi.

Þetta er svolítið flókið. Núna þegar Signý virðist orðin heil heilsu (og sefur fastar en áður) getum við farið að einbeita okkur að Hugrúnu. Margar lausnir koma til greina. Sefur hún of mikið á daginn? (þá er ráð að vekja hana fyrr og láta hana sofa styttra í einu á daginn) Vantar hana meiri örvun til að vera róleg ein í rúminu? (Við höfum þegar keypt áhugavert tuskudót sem dugar aðeins hálfa leið) Er hún með eftirköst af magakveisunni frá því í sumar? (Þetta er á sama tíma sólarhrings, en mér skilst að það sé óhugsandi) Er hún bara búin að komast upp á lagið með að vaka á þessum tíma og fá sínu fram, vegna ástandsins undanfarið (þá þarf að vera staðfastur á móti og breyta öllu skipulaginu svo hún haldi Signýju ekki vakandi með gráti). Getur verið að hún sé enn veik, t.d. með leifar af blöðrubólgunni, og finnur til þegar hún pissar? (Þá þarf bara að hlúa að henni og passa að henni verði ekki kalt. Þetta er í athugun hjá heimilislækninum þessa dagana) Eða er hún kannski ekki nógu södd þegar hún fer að sofa? (Hingað til hefur hún verið með streptókokkasýkingu í hálsi og haft litla lyst. Kannski getum við bætt á hana fyllingu fyrir svefninn úr þessu).

Eins og sjá má eru spursmálin mörg og spennandi að sjá hvaða úrræði reynist best. Það sem er ljóst er hins vegar það að við Vigdís þurfum að fá meiri festu í rútínuna og tíma út af fyrir okkur áður en við förum að sofa því þetta er afar lýjandi til lengdar, bæði andlega og líkamlega. Reyndar venst það furðufljótt að sofa slitróttum 4-5 tíma svefni á nóttu, en það er önnur saga.

Engin ummæli: