fimmtudagur, janúar 10, 2008

Daglegt líf: Þrír strandaglópar

Ég verð eiginlega að tjá mig um það sem gerðist í dag og leyfi "veikindaannálnum" að sitja á hakanum enn um sinn (enda ekki óeðlilegt að lífið haldi áfram, með hversdagsviðburðum, þó til standi að líta vandlega um öxl).

Ég gerði skurk í gömlum trassaskap og hreinsaði til í samviskunni. Fyrst fór ég á bókasafnið og fékk starfsmann til að líta í geymslur. Þannig var að í október tók ég nokkrar bækur í safninu á Kópavogi og skilað um mánuði seinna, á Seltjarnarnesi. Þeir tóku við bókunum, enda millifærslur bóka á milli safna alkunna. Ég hef skilað þangað bókum sem áttu heima í bókasöfnum Reykjavíkurborgar en vissi ekki að samvinnan nær ekki alla leið í Kópavoginn. Starfsmaðurinn tók samt í fljótfærni við bókunum. Hvergi var skráð í kerfinu að ég hefði skilað bókunum, og skuldin safnaðist upp. Svo kom jólavertíðin og maður nennti ekki að spá í svona hluti, enda skrifaði ég mistökin á safnasamvinnuna (og ætlaði mér aldrei að borga skuldina).

Núna í gær fór ég markvisst í Aðalsafnið í Tryggvagötu í þeirri trú að bækurnar hefðu mögulega farið upp í hillu hjá þeim (og ekki verið skráðar í kerfið). Þegar ég grennslaðist eftir þeim reyndust þær vera strandaglópar inn í geymslu!? Það er eins og enginn hafi "nennt" að taka ábyrgð á þeim, hvort sem það fæli í sér að skila þeim til baka á Nesið, hafa samband við mig (sem var enn skráður fyrir bókunum) eða bara skila þeim á eigin ábyrgð í Kópavoginn. Afgreiðslukonan var samt liðleg og hringdi fyrir mig suður og útskýrði hvernig allt hefði atvikast og fékk skuldina fjarlægða með diplómatískri stimamýkt. Þangað fór ég síðan í dag með bækurnar - og vesenið þar með að baki. Það sem er ergilegt við þetta, eftir á að hyggja, er að ég skyldi þurfa að hafa frumkvæði að þessu öllu og klippa á "hnútinn" sjálfur með "handafli". Ég þurfti að koma í eigin persónu og "leysa þær úr gíslingu". Mér leið eins og embættismanni að leysa út afvegaleidda þegna í erlendri prísund.

Ég afgreiddi annað mál í dag (sem felur ekki í sér áhugaverða sögu í sjálfu sér) en ég fór með bíllinn í smurningu. Í leiðinni uppgötvaði starfsmaðurinn að kúplingin væri ónýt. Það er léttir því lengi hafði ég áhyggjur af því að gírkassinn væri að gefa sig. Munurinn á þessu tvennu er mikill. Kúplingin gæti kostað 50 þúsund en hitt nokkur hundruð (þúsund). Leiðinleg gírskiptin mun því heyra sögunni til í næsta mánuði. Það er annar léttir dagsins, og ekki minni en sá fyrri.

Engin ummæli: