sunnudagur, desember 30, 2007

Daglegt líf: Óvenjuleg jól

Þá eru jólin að baki. Venjulega förum við í mat til mömmu á aðfangadag, förum svo í jólaboð til systur Vigdísar og daginn eftir til pabba hennar. Þrjú boð í röð. Ágæt hefð. Í ár urðum við hins vegar að brjóta þetta upp vegna veikinda. Signý fékk blómstrandi hlaupabólu um það bil þegar Hugrún var að ná sér af sinni. Við fórum í fyrsta jóaboðið saman en eftir það tók ég það að mér að passa stelpurnar heima (á öðrum í jólum var Signý komin með 40 stiga hita og öll útsprungin). Vigdís mætti hins vegar fyrir okkar hönd. Ég var samt ekkert illa settur með mitt hlutskipti. Það var bara jólalegt á sinn hátt að vera heima í ró og næði og leika sér við dætur sínar. Snjóþunginn úti við gerði þetta bara enn huggulegra og einangrunina áþreifanlegri. Maður á líklega eftir að muna eftir þessum jólum með einhverjum fortíðarglampa í augum, svona eins og þegar maður rifjar upp rafmagnsleysi, sjónvarpslausa fimmtudaga og aflýsta skóladaga vegna óveðurs. Þetta var svolítið sérstakt.

Engin ummæli: