Í gærmorgun var tilhlökkun í loftinu eftir barnasjónvarpinu. Signý vissi reyndar ekki hvað var í vændum en við Vigdís vorum búin að bíða nokkuð lengi eftir seríu númer tvö með Snillingunum (Little Einsteins). Þetta er kennslufræðilega útpældar teiknimyndir um fjóra unga vini (og allsherjar farartækið þeirra) sem þurfa að leysa einhvern vanda (t.d. frelsa einn þeirra úr sápukúlu, hjálpa mús að ná sambandi við tunglið, finna týnt boðskort í fiðrildaveislu eða bara svæfa geimskipið þeirra með því að fljúga sólkerfið á enda). Til að leysta þrautirnar notast vinirnir við þekkt tóndæmi úr klassískri tónlistarsögu sem fylgir atburðarásinni allri eins og leiðarastef. Á sama tíma rennur bakgrunnsmyndin saman við þekkt málverk úr listasögunni. Svo birtast inn á milli þekktir staðir og náttúrufyrirbæri þannig að þættirnir sýna í leiðinni hvað Jörðin er merkilegur staður. Miðpunkturinn í hverjum þætti er hins vegar málverkið (eitt eða tvö) tónverkið, sem kynnt er í upphafi og afkynnt aftur formlega í uppklappi í lok þáttarins.
Signý fylgist vel með
Originally uploaded by Steiniberg.
Signý er heilluð af þessum þáttum og við Vigdís höfum sogast inn í þessa seríu með henni. Við fórum að taka upp þættina þegar langt var liðið á fyrstu seríu. Núna höfum við horft á þessa fáeinu þætti ótal oft og vorum farin að lengja eftir nýju efni. Næsta sería lofar góðu enda eru þættirnir framundan fullir af áhugaverðri tónlist og myndlist (eins og sjá má hér). Hver þáttur er frumsýndur á laugardagsmorgnum og endursýndur rétt fyrir fréttir á föstudögum, tæplega viku seinna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli