Það var vægast sagt óborganleg grein i Fréttablaðinu í gær undir fyrirsögninni "Refaskytta í gæsaleit skaut tvo stóra útseli". Ég ætla svo sem ekkert að nefna manninn á nafn, en gef honum í staðinn orðið:
"Ég var bara að kíkja að gamni hvort ég sæi einhverjar gæsir"...en þá rak hann augun í útsel í víkinni, en þeir eru víst sjaldgæfir á þessum slóðum (Kaldbaksvík). "Ég sá einn svona hundrað metra frá landi og skaut hann. Ég var með veiðistöng og spún og ætlaði að húkka í hann og sá að ég dreif ekkert". Þá beið hann eftir því að selinn rak nær landi og var eitthvað að útbúa spotta til að ná til hans. "Þá sá ég að það var annar, enn þá stærri, úti á víkinni þannig að ég náði bara í riffilinn og plammaði hann líka". Síðan er sagt frá því í greininni hvernig hann hóaði í föður sinn og þeir komu selunum á land og hjálpuðust að við að "bisa skepnunum upp á bílpallinn". Selirnir vógu 325 og 232 kíló. Þá er sagt frá því að Hringormanefnd greiði (að sögn refaskyttunnar) þrjú þúsund krónur fyrir hvern selskjálka og fimmtíu krónur að auki fyrir hvert kíló sem dýrin vega, þannig að skyttan fékk um þrjátíu þúsund krónur fyrir báðar skepnurnar. Hann segist hins vegar ekki ætla að nýta dýrin neitt frekar: "Alla vega langar mig ekki í það. Ég bauð handverkskonu að hirða skinnið og hún var alveg himinlifandi en svo kom hún og skoðaði og sá að hún þyrfti kranabíl til að snúa honum svo hún hætti við. Ég verð bara að láta urða þetta."
Öll þessi atburðarás og orðfæri mannsins minnir mig á atriði úr Spaugstofunni, eða Fóstbræðraskets. Einhver afdala skytta þekkir ekkert nema að skjóta, vinnur við það að skjóta refi, ákveður að gera eitthvað annað til tilbreytingar en er á endanum kominn i einhverja vitleysu sem enginn græðir á. Eins og ofvirkur krakki sem fiktar við eitthvað og tekur sundur tæki og slítur snúrur úr sambandi bara til að hafa eitthvað fyrir stafni. Man einhver eftir Emil í Kattholti? Þannig hvatvísi er mér í huga þegar ég les þessa atburðarás. Ekkert hugsað um samhengi hlutanna, bara ætt áfram. Er þetta ekki kjörið dæmi um það þegar skotið er fyrst og spurt eftir á? :-)
Hvað er þetta annars með Hringormanefnd? Er þarna verið að hvetja til selveiða í því skyni að halda jafnvægi á dýrastofnum (eða halda í skefjum hringormum)? Þegar nefndir eða sjálfskipaðir sérfræðingar fara að hvetja til dýraveiða til þess að halda jafnvægi á vistkerfinu þá hljómar það eins og hver önnur hring(orm)avitleysa. Svona eins og þegar vitgrannur leiðtogi stórveldis fer út í heim að boða lýðræði. Náttúran sér um sig sjálf. Maður hefði alveg skilið það ef veiðimaðurinn hefði lagt selina sér til munns. Það eru allt aðrir sálmar.
Fyrir nokkrum mánuðum var sýnd heimildarmynd um Maó. Honum datt einn góðan veðurdag í hug að allar pestir bærust okkur með fuglum. Þá var fyrirskipað að hver kínverji skyldi kappkosta að útrýma fuglum í borginni. Konur, börn, fullvaxta karlmenn og gamalmenni veifuðu kússköftum út í loftið þangað til fuglarnir duttu niður örmagna. Þetta gerist bara í Kína. Fuglarnir drápust milljónum saman, en þeir komu samt aftur. Og það var aldrei neitt að þeim. Annað óborganlegt skets úr raunveruleikanum átti sér stað í fyrra þegar fuglaflensan átti að vera yfirvofandi (var hún það eða var þetta ímyndun?). Óttinn var svo mikill að menn voru farnir að líta alla fugla hornauga, einkum farfugla sem komu langt að. Hinn einstaki og óumdeilanlega stríðelskandi Shirinovski hvatti þá til þess að herinn skyti alla farfugla sem færu yfir landamærin til Rússlands. Þetta eru dæmi um menn sem þekkja bara vopnvald og bera ekki skynbragð á hið flókna og fíngerða samhengi hlutanna.
Fyrst ég minntist á Spaugstofuna áðan þá verður mér ósjálfrátt hugsað til brandara sem þeir settu í útvarpsþættina sína fyrir margt löngu, sem minnir sérlega á greinina um refaskyttuna sem ætlaði sér eitt en gerði svo eitthvað allt annað. Það var svona "skets" um mann sem fór í byggingarvöruverslun og ætlaði að kaupa "klósett" en fór út með "salerni".
Viðskiptavinur: Eigið þið nokkuð til klósett?
Sölumaður: Nei, ekki heilt klósett. En við eigum hins vegar stakar klær.
Viðskiptavinur: Nú? Eigið þið þá kló af fálka?
Sölumaður: Nei, en við eigum kló af erni.
Viðskiptavinur: Hvernig erni?
Sölumaður: Salerni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli