laugardagur, september 29, 2007

Upplifun: Lauf og leikur

Í gær hringdi Vigdís í mig í vinnuna og spurði mig hvort mig langaði ekki á "leikinn". Hún hafði nefnilega reddað mér tveim miðum á leik Vals og HK gegnum útvarpsstöð. Svona hugsar hún um mann jafnvel þegar maður er í burtu :-). Ég tók þessu gylliboði að sjálfsögðu vel, enda fátt skemmtielgra en að fara inn í helgina með fögrum fyrirheitum. Vigdís hafði sjálf reyndar ekki áhuga á leiknum svo ég þurfti að skima um eftir boltafélaga. Nokkrir komu til greina en fyrir tilviljun hringdi Jón Már einmitt í mig þegar ég var rétt að byrja að leita. Heimili Jóns er á mjög skemmtilegum stað með tilliti til uppákoma í dalnum, (í Álfheimunum) og þvi tilvalið að leggja bílnum þar, fjarri þvögunni, og ganga í rólegheitum á staðinn. Sú ganga var vel þess virði. Reyndar vorum við á því að gangan sjálf hafi slegið leiknum við því haustlitirnir allt í kring voru vægast sagt hrífandi. Grasagarðurinn er auðvitað vel skipaður fjölbreyttri flóru og það er hrein unun að sjá hvernig allir litirnir vega hvern annan upp. Sums staðar er augljóst að niðursetning plantnanna hafi verið hugsuð út frá haustlitunum. Ég dauðsá eftir að hafa ekki verið með myndavél og er eiginlega á því að það sé þess virði að skella sér aftur í dalinn, vopnaður vélinni góðu. Í kjölfarið fæddist sú hugmynd að fara í sambærilega ferð í Heiðmörkina á morgun. Það verður án efa skemmtilegt. Signý kemur með og hugsanlega Vigdís og Hugrún líka (í magabelti).

Hvað leikinn áhrærir (svo maður komi sér aftur að upphafspunktinum) þá var það prýðileg skemmtun að fylgjast með áhorfendum, eins og alltaf á svona leikjum. Ég tók eftir því að litla stúkan á móti var galtóm (á meðan sú stóra var bara hálffull). Líklega er þetta alltaf svona á deildarleikjum, því sætaval var frjálst. Allt í einu læddist að mér lítill stríðnispúki. Mig langaði allt í einu ógurlega mikið til að vera "þessi eini hinum megin". Ef ég hefði ekki haft félagsskap hefði ég líklega stokkið yfir og horft á allt mannhafið í mestu makindum. Svo hefði ekki verið úr vegi að taka nokkur spor, hoppa, veifa og láta á mér bera. Líklega myndi maður rata inn á nokkuð margar ljósmyndir, svona í bakgrunni, rétt eins og náunginn sem stundar það að smygla sér inn á konungsfjölskylduljósmyndir í Evrópu. Ég ber mikla virðingu fyrir svona hugsjónamönnum. En ég hætti við. Var of bláklæddur til að sjást almennilega (sú afsökun dugði mér að minnsta kosti). Kannski maður undirbúi þetta aðeins betur næst og mæti bara í rauðri og hvítri þverröndóttri prjónapeysu eins og Valli í bókinni frægu:-)

Engin ummæli: