Signý er lífleg og hugmyndarík. Hún skilur okkur mjög vel og tjáir sig á lifandi hátt og notast við tilþrifamikið tungumál af einhverjum óþekktum uppruna, svipbrigði, dansspor og blærbrigðaríkt tónfall. Hún hermir eftir okkur stöðugt. Hins vegar notast hún við afar fá orð enn þá. Það hvarflar að mér hvort hún sé þessi týpa sem bíður með hlutina þar til hún er viss um að þeir séu í lagi og láti þá vaða. Hún er að minnsta kosti mjög varkár. Stundum velti ég því líka fyrir mér hvort hún eigi erfitt með einhver tiltekin hljóð og að það hamli henni á einhvern hátt. Til dæmis hefur hún ótal oft sagt "Hugrún" en ekki sitt eigið nafn. Þá segir hún í besta falli "Diddý" (sem okkur finnst samt óskaplega sætt og tímum ekki að leiðrétta). Ég man ekki eftir því að hafa heyrt hana bera fram "S" eða "T" enn þá. Kannski er það þröskuldur sem þarf að ryðja úr vegi. Hún er til dæmis farin að segja "leikskóli" með því að fara í kringum orðið: "Gégolí". Það styður a.m.k. S-kenninguna.
Einhvern tímann í haustbyrjun fór hún að taka eftir köngulóm. "Gogguljó" sagði hún af ákefð. Þá var ég nú viss um að orðaflaumurinn væri á leiðinni. Hins vegar varð þetta eina orð að þráhyggju. Einskær áhugi Signýjar á köngulóm varð til þess að hún sá köngulær í hverjum kima og tengdi meira að segja köngulóarvefi i bókum við köngulær (án þess að henni væri bent á það sérstaklega). Stundum finnst henni allar pöddur vera köngulær, en það er skiljanlegt. Það er eins og orðið eitt og sér hafi vakið athygli hennar á fyrirbærinu. Eða var það öfugt. Kom orðið upp úr eðlislægum áhuga á dýrum. Það er ekki svo afleit hugsun.
Hún þekkir fjöldamörg dýr og ég er ekki frá því að hún þekki sundur algengar fuglategundir nú þegar. Fyrir um mánuði síðan vorum við stödd á bókasafninu á Seltjarnarnesi, þar sem uppstoppaðir fuglar prýða innganginn í stóru glerbúri. Ég fór að spyrja hana út í loftið um krumma og uglu, sem hún þekkti. Það kom mér ekki svo mikið á óvart því þessir fuglar eru oft í myndabókum fyrir börn. Ég tók hins vegar upp á því að spyrja hana um kríu. Þegar hún benti rétt var ég verulega hissa. Hún hafði bara séð kríuna í fjarska, á flugi yfir fjörunni, og kannaðist aðallega við hljóðið. Tilviljun kannski? Við höfum ekki farið í þennan leik lengi en í dag kæmi mér síður á óvart að hún þekkti fuglinn. Hins vegar er lundinn í uppáhaldi þessa dagana. Hún á lundadúkku, mjög myndarlega, og hann er líka uppi á vegg á flottu plakati. Nýverið keypti ég póstkort handa henni með lunda. Það fannst mér stórsniðug hugmynd. Þannig er hágæða ljósmynd af fuglinum í höndunum á henni hvenær sem hún vill og má alveg krumpast.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þetta er dugnaðarforkur og eldklá stelpa.....
Hún er heppin að eiga svona vakandi og áhugasama foreldra....
Bestu kv. Begga frænka
Skrifa ummæli