mánudagur, september 10, 2007

Daglegt líf: Nýtt matarþema

Pabbi og mamma komu heim frá Grikklandi um daginn, sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi (enda ferðast þau tölvuert). Ekki urðu þau sérstaklega vör við eldana ógurlegu sem þar hafa geisað, að öðru leyti en því að bjarmann bar við nærliggjandi fjallasýn. Þau komu hins vegar færandi hendi með ýmsan grískan varning.

Hugrún og Signý fengu báðar kjól með dumbrauðu og ólífugrænu blómamynstri (miðjarðarhafsbragur á því). Einnig fengum við nettar en vandaðar grískar matreiðslubækur með girnilegum þjóðlegum réttum ásamt rauðvíni og fetaosti. Það á segja að þau hafi fært okkur gríska menningu á silfurfati. Ég var ekki lengi að nýta ostinn í matargerð. Í gær gerðum við einfaldan pastarétt sem samanstóð af tómötum og ólifum eingöngu (ásamt léttu kryddi). Með hvítlauknum og lauknum hefði þetta verið full ítalskt, en hann megum við helst ekki nota þessa dagana (laukar virðast fara illa í Hugrúnu gegnum móðurmjólkina). Við urðum því að leggja nýjar áherslur. Fetaosturinn kom þar sterkur inn ásamt ferskri agúrku lyfti matnum upp á annan stall.

Alvöru grískur fetaostur er öðruvísi en sá sem framleiddur er hér heima. Hann er bragðmeiri og öflugri. Ég kjamsa á honum einum og sér en ég hef tekið eftir því að flestir sem smakka hann vilja helst draga úr bragðinu með því að borða hann í bland við annað hráefni, í salötum og slíkum umbúnaði, svo öflugur er hann. Við fengu rausnarlegan skammt af ostinum þannig að hann á eftir að koma sér vel og nýtast næstu vikurnar. Það er því ljóst hvert matarþemað verður á okkar bæ þetta haustið. Ýtum Ítalíu aðeins til hliðar í bili.

Engin ummæli: