föstudagur, apríl 08, 2005

Upplifun: Megas LX

Konunglegt brúðkaup á morgun. Jarðarför í Vatikaninu í dag. Megas sextugur í gær. Þrír sögulegir dagar í röð og aðeins einn þeirra sem varðar mig nokkuð. Afmælistónleikar Megasar í Austurbæ voru haldnir í gær og þar var saman kominn ótrúlega fjölskrúðugur hópur listamanna. Nöfnin Súkkat, Valgeir Guðjónsson, Funkstrasse, Barnakór Biskupstungna, Hjálmar, KK, Jón Ólafsson og Trabant gáfu til kynna þá veislu sem var í vændum var ásamt hefðbundnari röddum Ragnheiðar Gröndal, Ellenar Kristjáns, Pálma Gunnars, Geirfuglanna og Heru. Allt var í bland og það var við hæfi - bundið inn í einn flottan afmælispakka af Möggu Stínu sem söng upphafs og lokalag á einfaldan en látlausan hátt - Fílahirðirinn frá Súrin og Fátækleg kveðjuorð (til) Megasar sem var vant við látinn í Köben.

Tónlist Megasar spannar óhemju vítt svið og manni fannst allir þessi flytjendur finna sinn eigin tón. Aðeins einn flytjenda af um tuttugu flutti Megas á hefðbundinn hátt, en hinir teygðu tónlistina á alla hugsanlega kanta frá blús, til reggítónlistar með viðkomu í barnslegum talsöng, magnaðri kassagítarárás og klassískum söng við barnakórsbakraddir. Funkstrasse tóku til að mynda Paradísarfuglinn á mjög hægu og drungalegu tempói með rödd úr iðrum jarðar. Það snarvirkaði eins og annað. Trabant fluttu svo magnaða rafhljómkviðu um hin Björtu borgarljós að maður fékk í magann. Lag eftir lag var maður gáttaður á færni tónlistarmannanna sem þarna komu fram en ekki síður styrktist aðdáunin á lífsverki Megasar. Ég á ekki orð yfir það hvað tónleikarnir voru vel heppnaðir og lögin vel valin. Ekkert fatlafól eða Esjan sjúklega. Engar Reykjavíkurnætur né nokkuð verið að spá í neinn. Bara djúpstæðir Megasarafkimar fluttir af þvílíkum bravúr. Ég fór stoltur og er enn yfir að hafa orðið vitni að þessum viðburði.

Engin ummæli: