sunnudagur, apríl 03, 2005

Upplifun: Flamengó

Um viku áður en við Vigdís fórum til Kanarí skelltum við okkur á Nasa og fylgdumst með undarlegum gjörningi. Þar var saman kominn fjögurra manna listagrúppa frá Barcelóna sem flutti svokallað elektróflamengó. Þetta var hálfgerð blanda af raftónlist og flamengótónlist sem átti sér stað á leiksviði, með leikmunum, borði og stólum, rétt eins og leikþáttur. Þeir sem ekki voru að flytja tónlist eða dansa þá stundina dunduðu sér við að drekka rauðvín eða slappa af í sófanum eins og þeir væru heima hjá sér uppi á sviði. Þarna var kynngimagnaður dansari sem spann í kringum hefðbundinn flamengódans, hás söngkona sem hvæsti á milli þess sem hún reykti sígarettur með leikrænum tilburðum og rafdútlarar að fikta í græjum á bak við. Ekta svona arty-farty útgáfa af flamengó. Með þetta í huganum brosti ég í sýningarsal hótelsins okkar á Kanarí nákvæmlega viku seinna. Þá horfðum við á túristasýningu af tiltölulega hefðbundnum flamengó. Tónlistin var af bandi en dansararnir voru færir og flottir. Samt svolítið óekta. Ég hugsaði með mér hvað þetta voru ólíkar útgáfur af sama fyrirbærinu. Ég átti ekki von á að finna milliveginn neins staðar á Kanarí, alvöru flamengó með ástríðu og tilfinningahita, því túrisminn tröllríður þar öllu sem kalla mætti upprunalegt. Ég rakst þó í lítilli verslun á myndarlega endurútgáfu af gömlum klassískum flamengóplötum með Paco de Lucía og Camarón de la Isla. Þar fann ég milliveginn eins og hann gerist bestur.

Engin ummæli: