laugardagur, apríl 23, 2005

Pæling: Yfirhugtök og undirhugtök í orðadæmum

Alla daga glími ég í vinnunni við það að útskýra tiltölulega einfalda hluti eða reyni að koma nemendum á bragðið með námsefnið með því að gera það meira aðlaðandi. Í stærðfræðinni sá ég meðal annars hversu fráhrindandi orðadæmin eru: Ef þú átt tvo tómata og einhver gefur þér einn tómat í viðbót, hvað áttu þá marga tómata? Væri ekki skemmtilegra að notast við líflegra og fjölbreytilegra mál? Hægt væri að kenna krökkunum á yfirhugtök og undirhugtök í leiðinni með eftirfarandi hætti: Ef þú átt þrjá bræður og tvær systur, hvað áttu þá mörg systkini? Eða tökum lífríkið sem dæmi: Þú sérð fjórar lóur úti í garði og þrjá skógarþresti. Hvað eru margir fuglar samtals í garðinum? Þetta er miklu eðlilegra. Við lendum nefnilega sjaldnast í því að telja eitthvert einangrað fyrirbæri og fáum svo skyndilega í hendur ný eintök af því (nema við séum beinlínis að stunda kaup og sölu á einhverju, eða að lána, skila og svo framvegis). Langoftast þegar við stöndum okkur sjálf að því að telja hluti umhverfis okkur er um að ræða einhvers konar flokkunarferli. Hugtakamyndun og talning eru yfirleitt samhangandi aðgerðir því við erum að reyna að henda reiður á umhverfinu með því að telja og flokka sundur eða saman. Stundum erum við með mörg eintök af sama fyrirbæri en við setjum það í mismunandi bása með því að lýsa þeim nánar: Ég á tvo heila bíla og þrjá bilaða, hvað á ég marga bíla alls. Einnig mætti taka tímahugtak fyrir með svipuðum hætti: Við erum búin að vera þrjá daga í þorpinu, fjóra daga á göngu og einn dag í borginn. Hvað er langt síðan við lögðum af stað? Þetta eru ekki sams konar bílar eða dagar þegar grannt er skoðað.

Engin ummæli: