fimmtudagur, apríl 21, 2005
Upplifun: Kvöldstund í Kópavoginum
Ég heyrði í Einari vini mínum um daginn og hafði þá ekki heyrt í honum í tæpt ár. Í ljósi þriggja mánaða reglunnar (sem ég skrifaði um í síðustu færslu) hefði ég vel getað séð fyrir mér einhverjar sviptingar á þeim tíma sem liðinn var en þó ekki eins miklar og raun bar vitni. Á þessu hálfa ári tókst þeim Sólveigu að fæða barn án þess að ég hefði haft hugmynd um að það væri á leiðinni og á sama tíma veiktist móðir Einars alvarlega og lést langt fyrir aldur fram. Það var kominn tími til að heimsækja hann með vöggugjöf og minningarorð í farteskinu ásamt hvítum blómum sem tákn um birtu og von. Það kom mér merkilega á óvart þessa kvöldstund í Kópavoginum hvað lítið hafði samt breyst. Við héldum áfram að spjalla um hversdagslega hluti og nörtuðum í ljúffengt góðgæti inn á milli (Einar dró fram marineraðan svartfugl úr ísskápnum og snöggsteikti tvær bringur til að smakka). Áformaðar byggingaframkvæmdir á Álftanesinu voru reyndar grandskoðaðar ásamt teikningum að nýju húsi sem þau ætla sér að byggja á næstunni. Ég naut þess að fara í smá ferðalag um framtíðaríbúðina þeirra í huganum, enda með mikinn áhuga á arkítektúr. Að lokum kvöddumst við á nokkuð táknrænan hátt með því að ég skutlaðist niður á bensínstöð fyrir hann eftir Morgunblaðinu (þar voru minngargreinar um móður hans) á meðan Einar var bundinn íbúðinni yfir Sædísi litlu sofandi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli