föstudagur, janúar 15, 2010

Pæling: Uppskrift sem jarðlög

Fyrir rúmri viku síðan fór ég í heimsókn til Bjarts og Jóhönnu og fékk að bragða á dýrindis kryddbrauði, beint úr ofninum. Bjartur sagðist hafa borið uppskriftina að brauðinu saman við ýmsar aðrar sem hann fann á netinu og fundist þessi einföldust og þægilegust. Ég tók hann á orðinu, enda er Bjartur með vandvirkari og markvissari náungum. Uppskriftin hljómaði hins vegar nánast ósannfærandi einföld:

Henda saman þurrefnum: 3 dl af hveiti, 3 dl af sykri og 3 dl af haframjöli ásamt bragðaukum (2 tsk kanill og hálf tsk. negull) og lyftiefni (1 tsk matarsódi). Þegar þessu hefur verið hrært vandlega saman (bara gróflega með sleif) skal "blautefnið" bætast við: Mjólk. Eins og með fyrstu þrjú hráefnin er um að ræða 3 dl. Svo er þessu hent í smurt form og inn í ofn þar til manni finnst brauðið vera tilbúið.

Nokkrum dögum síðar hugðist ég fylgja uppskriftinni eftir. Það var seint um kvöld. Hugmyndin var að setja þurrefnin saman í lokað ílát og mæta með það í vinnuna í annarri hendi og mjólkurpott í hinni. Þegar ég blandaði þessum þurrefnum saman gerðist hins vegar svolítið eftirminnilegt: Ég hreifst af lagskiptingu uppskriftarinnar! Hveitið, haframjölið og sykurinn mynduðu glæsileg "jarðlög" með örlitlu "öskulagi" efst (kryddin og matasódinn). Ég hugsaði með mér hvað það væri sniðugt að setja uppskriftir á þetta sjónræna form. Sjá hér:





Að minnsta kosti átti ég auðvelt með að muna uppskriftina svona sjónrænt. Á það reyndi daginn eftir vegna þess að þá ákvað ég að taka ílátið ekki með mér í vinnuna. Ég ofmat álagið þann daginn og fannst ég ekki geta sinnt þessu. Á staðnum reyndist ég hins vegar hafa góðan tíma eftir allt saman og fór að gramsa í eldhússkápum, með uppskriftina svona kristaltæra í kollinum. Já, það var rétt sem þau Bjartur og Jóhanna sögðu: Einn af helstu kostum uppskriftarinnar er sá að hráefnin eru til nánast í hverju eldhúsi. Bbrauðið fékk að ilma á ný.

Þetta minnir mig á það að ég þyrfti að lífga upp á uppskriftasíðuna. Nú er tími til kominn.

Engin ummæli: