Þá eru jólin strangt til tekið að baki - svona alheilögustu dagarnir að minnsta kosti. Erillinn í aðdragandanum hélt mér alveg frá blogginu um tíma svo ég stekk núna nokkra daga aftur, til þess tíma er jólin voru um það bil að bresta á. Þá var ég í bíltúr með Birki ásamt Signýju og Hugrúnu.
Við vorum orðin vonlítil um að finna stæði í miðbænum örfáum dögum fyrir jól þegar skyndilega opnaðist eitt neðarlega á Hverfisgötunni, akkúrat fyrir neðan "Jólaþorpið". Líklega besta stæðið í bænum þá stundina. Það var ískalt úti, líklega um 5 gráðu frost og næðingur í ofanálag. En þarna var flott jólastemning í frostköldu loftinu og lúðrasveit á planinu í jólaskapi. Við örkuðum kappklædd inn á svæðið og fórum undir eins inn í fyrsta tjaldið vegna kuldans. Við blöstu jólatré af öllum stærðum og gerðum. "Má ekki bjóða ykkur jólatré?" kom óhjákvæmileg spurningin. Það var Edda Heiðrún Bachman sem ávarpaði mig kurteislega. Ég leit kringum mig og sá að þarna voru saman komnir nokkrir valinkunnir leikarar frá ýmsum tímum. Líklega var þetta sölubás Þjóðleikhússins. "Nei, ég er eiginlega bara að flýja kuldann" sagði ég, "við búum svo þröngt að við gætum ekki komið jólatré fyrir þó við vildum". Þá benti hún kollega sínum á að finna "litla blágrenið þarna fyrir aftan" sem fannst eftir örsutta leit. "Þetta er svona horntré" útskýrði hún og benti á hversu gisið það var öðrum megin. Hún vildi meina að þetta væri sannarlega betra en ekkert - bara stilla því út í horn ofan í ílát með vatni. Það átti að kosta þúsundkall, sem er svo sem ekkert, en ég ætlaði mér samt ekki að kaupa mér tré. Diplómatískur hallaði ég Hugrúnu hins vegar að trénu og leyfði henni að þefa. Þetta var auðvitað liður í því að sýna áhuga samt sem áður. Hugrún snusaði, fann lyktina af jólunum, og bræddi líklega hjartaði í Eddu því hún sagði að bragði: "Veistu hvað, ég ætla bara að gefa ykkur tréð" og fyrirskipaði svo Benedikt Erlings að rúlla því upp fyrir mig. Þá gat ég ekki annað en þegið tréð og kvaddi með virktum fyrir örlætið.
Þannig eignuðumst við fyrsta lifandi jólatréð okkar! En nú voru góð ráð dýr. Við þurftum að eignast almennilegan fót fyrir tréð til að Signý og Hugrún veltu því ekki um koll. Ég sá fyrir mér hvernig ég gæti henst í vinnuna og nýtt mér smiðaaðstöðuna þar til að setja eitthvað saman til málamynda og fór að skissa einhverjar hugmyndir á blað. Það voru bara þrír dagar til jóla og varla neinn tími til stefnu. Mér fannst hins vegar ótækt að kaupa 5-10 þúsund króna fót fyrir ókeypis tré!!! Tréð skapaði svo sannarlega vandamál sem þurfti að leysa, einmitt þegar enginn tími var til stefnu. Það var á tímabili litið hálfgerðu hornauga, eins og það væri boðflenna á ögurstundu. En sem betur fer komumst við að því, bara á meðan við vorum að deila út pökkum daginn fyrir Þorláksmessu, að einn fótur var á lausu innan fjölskyldunnar. Málum reddað fyrir horn. Að svo búnu var trénu stillt upp vandlega í stofunni, en þá tók seríuvandinn við? Við áttum eina tæpa. Hún var hins vegar mjög tæp. Nokkur kerti voru sprungin og hin sem eftir voru reyndust skuggalega heit þegar á reyndi. Við settum hana á og á Þorláksmessu og Aðfangadag leyfðum við seríunni að loga stutt í einu, bara til málamynda, og drógum í leiðinni slökkvitækið inn í stofu, bara til vonar og vara (svona gamlar seríur geta verið stórhættulegar, skilst manni). En okkur barst á ný hjálp. Sirrý, mamma Vigdísar, hafði fullan skilning á alvarleika málsins og gaukaði að okkur í jólaboði á Jóladag glæsilegri rauðri seríu sem hún átti aflögu. Þetta virkaði að sjálfsögðu sem hvatning og í kjölfarið fór Vigdís að gramsa enn betur í kössum og fann nett jólaskraut sem hæfði rauði seríunni. Núna logar því í stofunni myndarlegt tré, til þess að gera, þangað sem það komst svo sannarlega með herkjum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli