Signý hélt upp á afmælið sitt um helgina (sem er strangt til tekið ekki fyrr en þann þrettánda). Hún er búin að vera með þetta í maganum lengi enda er desembermánuður hennar hátíð út í eitt. Undanfarna daga hafði hún spurt mig reglulega út í jólin og afmælið. Hún áttaði sig ekki alveg á muninum, fannst mér, svo ég skissaði upp eins konar dagatal á strimil. Þar merkti ég inn dagarununa frá fyrsta desember og til aðfangadags með skýrum reitum, daganúmerum og öðrum viðeigandi merkingum. Með þessu gat ég einfaldlega sýnt henni dagafjöldann og talið dagana með henni jafnóðum og ég strikaði út dagana sem voru að baki.
Svo kom helgin. Í heimkeyrslunni spurði Signý mig strax: "Hvað eru margir dagar þangað til ég á afmæli?". Hún vissi það reyndar en vildi fá staðfestingu á því að þeir væru bara tveir og sagði svo: "Ó, hvað ég er spennt!"
Afmælið gekk ljómandi vel þrátt fyrir meiri forföll en oft áður. Einhverjir mættu daginn fyrir og aðrir eiga eftir að kíkja óformlega seinna. Svo er barnaafmælið líka eftir - á laugardaginn kemur! Það verður einfalt og óformlegt, eins konar opið hús fyrir börn og aðstandendur þeirra. Maður vonar bara að Signý verði ekki ringluð eftir þetta allt saman því leikskólinn verður líka með smá uppákomu í vikunni fyrir hana og önnur afmælisbörn mánaðarins. Ef svo er tekur maður bara upp strimilinn góða.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli