Eftir svokallaða "dugnaðarviku" nýlega er eins og allur vindur hafi farið úr manni. Ég veiktist og varð hálf skrýtinn í nokkra daga. Það lýsti sér sem lágur morgunhiti, 38 gráður, sem runnu af mér á hádegi - tvo daga í röð. Vægast sagt sérkennilegt mynstur það. Önnur einkenni voru líka óheðfbundin - ekki neitt í hálsi, né hausverkur eða beinverkir. Hins vegar var ég alsettur verkjum í vöðvum eins og um allsherjar harðsperrur væri að ræða. Ég reyndi að setja þetta í samband við duglegt skokk sem ég einhenti mér í á dögunum en sú skýring hefði þó aðeins náð upp í kálfa. Ég hafði enga skýringu á því hvers vegna ég var með vöðvaverki í öxlum, baki,lærvöðvum og upphandlegg auk þess að vera með verulega skertar fínhreyfingar í fingrum.
Þetta hafði þau áhrif að ég var frá vinnu á miðvikudaginn var (fyrir viku) og á fimmtudaginn líka. Á föstudaginn var kíkti ég í vinnu og lagði mig fram um að vinna eins og maður (eins og heill maður). Svo til læknis, á læknavaktina. Bráðabirgðaniðurstaða hans var sú að ég hefði fengið einhvern vírus (þeir eru víst ólíkindatól og hegða sér oft undarlega) sem hefði fengið útrás með þessum viðvarandi slappleika á eftir. Verkirnir voru hins vegar "beinverkir", sagði læknirinn. Svokallaðir "beinverkir" eru nefnilega "vöðvaverkir" sem okkur finnst koma innan úr beinum. Í þessu tilviki var tilfinningin bara önnur. En niðurstaðan var sú að mér ætti að batna á nokkrum dögum - ellegar skyldi ég koma aftur og láta taka blóðprufu.
Þetta stóð heima hjá lækninum. Verkirnir dvínuðu reyndar hægar en ég hafði vonast til en í dag, þriðjudag, er ég hins vegar orðinn nokkuð góður. Það lýsir sér meðal annars í því að ég get "pikkað" á lyklaborð án þess að finna fyrir áreynsluþreytu í upphandleggg og verkjum í fingrum. Þetta er allt að koma.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli