laugardagur, nóvember 28, 2009

Netið: Skemmtileg tuskudýr

Við skruppum í bæinn í dag. Gengum Laugaveginn. Hugmyndin var að upplifa Þorláksmessu með góðum fyrirvara og fá hugmyndir að jólagjöfum, jafnvel kaupa eitthvað. Hugrún var hins vegar þreytt svo við stöldruðum ekki eins lengi við og til stóð. Hins vegar áttum við gott stopp í Kisunni. Þar kennir sannarlega margra grasa. Eigendurnir kaupa, skilst mér, vörur héðan og þaðan - aðallega bara það sem þeim sjálfum þykir vænt um og vilja hafa heima hjá sér. Það ægir öllu saman - geisladiskum og brúðum, bókum og bollastellum, þroskaleikföngum og klæðnaði. Við fundum fullt af skemmtilegum gjöfum, svo sannarlega, en Hugrún beit líka á agnið. Hún hélt tangarhaldi í sérlega vandaðan hund (brúðu) sem við öll urðum hrifin af á staðnum. Hann var keyptur, tveir slíkir reyndar, fyrir Hugrúnu og Signýju. Þær fengu þá hins vegar ekki í hendur aftur fyrr en löngu seinna, rétt fyrir svefninn. Mikið var gaman að afhenda þeim hundana í rúmið og sjá þær kúra með sinn hvorn hundinn og sofna eins og sannkölluð jólabörn á tíu mínútum.

Núna þegar ég hef ákveðið að kveikja á tölvunni langaði mig að skoða fleiri vörur frá framleiðanda hundanna (hann var svo vandaður, að okkur fannst). Niðurstöður má sjá hér á þessari skemmtilegu síðu: Douglas Cuddle Toy

Engin ummæli: