Í gær fékk ég bæði jákvæðar og neikvæðar fréttir inn um póstlúguna. Ég fékk annars vegar að vita það að lögreglan er farin að fylgjast mjög náið með hraðaakstri í hverfinu. Sem er gott. Hins vegar frétti ég þetta frá lögreglunni sjálfri. Ekki nógu gott. Þeir gómuðu mig í hverfinu með eftirlitsmyndavél, á 48 kílómetra hraða á götu þar sem hámarkshraðinn er þrjátíu.
Nánar tiltekið var þetta um hábjartan daginn á Kaplaskjólsvegi - nánast gatan heim í hlað, klukkan hálf þrjú (engin umferð). Ef ég þekki mig rétt þá hef ég ákveðið að aka greitt þennan stutta spotta vegna þess að ég sá vel yfir og ekki nokkur hræða á sveimi um þetta leyti á svæðinu. Yfirsýn er mjög góð þegar engum bíl hefur verið lagt í götunni, eins og tíðkast um þetta leyti. En því miður þá er eftirlitsmyndavél bara vél og tekur ekki mið af aðstæðum.
Svekktur? Nei, bara hissa á að lenda í þessu aftur. Það rifjaðist upp fyrir mér hraðasekt sem ég fékk á leiðinni til Færeyja fyrir sex árum síðan (sjá hér). Samanlagt hef ég nú verið gómaður þrisvar (einu sinni þegar ég vann fyrir austan, á leið milli Hellu og Hvolsvallar). Í öll skiptin varð ég jafn hissa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli