sunnudagur, nóvember 15, 2009

Upplifun: Tvíkeypt gjöf

Nú er athafnasamur sunnudagur að baki. Við fengum fullt af gestum í heimsókn, bæði upp úr hádegi og seinni partinn. Þar á milli skruppum við Signý og Hugrún í afmæli til bestu vinkonu Signýjar úr leikskólanum. Þar gekk allt óskaplega vel og maður sá betur en áður hvað þær eru góðar vinkonur. Þetta var líka til þess að brjóta ísinn því núna geta þær farið að mæta í heimsókn hvor til annarrar. Reyndar er það allt í burðarliðnum...

Gærdagurinn var ekki síður eftirminnilegur, en fyrir allt aðrar sakir. Við Signý og Hugrún fórum í bókabúðina á Eiðistorgi og fundum þar afmælisgjöf. Þetta var samtíningur sem Signý valdi saman af natni. Þessu var öllu pakkað inn mjög skemmtilega af afgreiðsludömunni. Síðan fórum við beint á eftir upp á bókasafn, sem er þarna nánast beint á móti. Þar héldum við okkur næsta hálftímann eða þar til tilkynnt var um lokun. Þær systur voru búnar að klæða sig úr útiskóm og heitum útiflíkum þannig að það var svolítil fyrirhöfn að hafa sig af stað á ný. Ekki bætti úr skák að Hugrún var engan veginn tilbúin að yfirgefa svæðið og harðneitaði að fara í skó. Það endaði þannig að ég hélt bara á Hugrúnu, skólausri, og var með skóparið í fanginu ásamt henni. Signý var hins vegar viljug til að halda á úlpunni hennar á leiðinni út. Þegar þangað var komið var daman klædd, áreynslulaust að þessu sinni, og við fórum út í bíl. Þegar heim var komið uppgötvaði ég hins vegar að pakkinn hafði ekki komið með okkur!!! Við það brunaði ég einn upp á safn og var kominn þangað fimmtán mínútum eftir lokun. Þá var kveikt innandyra en enginn á ferli þrátt fyrir ítrekað bank og bjölluhringingar. Líklega var enginn innandyra (ég gat gægst). Ljósið var hugsanlega ætlað ræstingunni sem var á næsta leyti. Gjöfin var hins vegar ábyggilega innandyra og myndi ekki koma í leitirnar fyrr en á mánudaginn kemur. Það er náttúrulega allt of seint. Ég sá í anda sársvekkta Signýju sem hafði brugðið mikið við að hafa gleymt gjöfinni. Þá datt mér þjóðráð í hug. Ég arkaði aftur út í bókabúð og vissi að ég myndi finna eitthvað annað í staðinn - með þá von í brjósti að ef til vill væru til önnur eintök af sömu hlutum og voru í pakkanum týnda. Sem og reyndist vera. Ég rétti afgreiðslukonunni nákvæmlega sömu hluti og áður og greindi í leiðinni frá atburðarásinni. Hún sýndi mér skilning og tók sérstaklega fram nýja rúllu af sama umbúðapappír og hafði klárast hálfum tíma fyrr og bjó nákvæmlega eins um hnútana og áður. Svo var hún að sjálfsögðu tilbúin til að taka við hinum pakkanum strax eftir helgi.

Þar með voru allir sáttir og jafnvægi helgarinnar stóð óraskað.

Engin ummæli: