föstudagur, nóvember 27, 2009
Daglegt líf: Eldhússamræður
Nú á krepputímum er mikilvægt að laga einfaldan og ódýran mat sem oftast. Í kvöld var það hrísgrjónagrautur eftir öllum kúnstarinnar reglum (kanilsykur, vanilludropar, rúsínur og smjörklípa). Til að hann bragðist sem best þarf maður nauðsynlega að standa yfir honum og hræra reglulega á ekki of háum hita (annars kemur hæglega brunabragð af mjólkinni). Þessu hafa stelpurnar gaman af og njóta þess að hjálpa mér, svona við og við. Hugrún stóð við hlið mér all lengi og bað mig síðan: "Vittu halda mér og hræða?", sem má svo sem alveg misskilja. Ég lyfti henni hins vegar varlega upp að pottinum þar sem hún naut þess að "hræða" í grautnum með mér smástund. Svo fylgdist hún vel með þegar ég tók fram vanilludropana. Þegar hún fékk að þefa af dropunum sagði hún að bragði: "Oj, vond litt (lykt)" (þetta segir hún eiginlega alltaf þegar hún fær að þefa af einhverju). Síðan var henni lyft upp á ný til að fylgjast með því hvernig kandísbrúnn litur dropanna blandaðist saman við hvítan grautinn. En ekki hefur henni fundist liturinn merkilegur: "Það gleymdi (að) setja tómatsósu". Auðvitað! Tómatsósan reddar öllum mat. Hún Hugrún notar mikið orðið "geymdi" í merkingunni "vantar", sem mér finnst svolítið merkilegt. Ég benti henni hins vegar á að það ætti engin tómatsósa að fara saman við grautinn. "Ó" sagði hún þá (sem hún gerir gjarnan þegar hún er leiðrétt). Við svo búið kom Signý inn í eldhús. Hún vissi að ég væri að hita graut. Hún var farin að hlakka til og spurði full eftirvæntingar: "Pabbi, má ég líka fá blóðnös?". Ekki skildi ég spurninguna fyrr en hún endurtók: "Blóðnös, með sykri á!"
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
hahaha þetta er frábært ...fyndnar og sniðugar...
ég vildi að ég hefði verið á staðnum
kv."Begga frænka"
Skrifa ummæli