laugardagur, nóvember 28, 2009

Daglegt líf: Dugnaðarvika

Nú er aðventan að hefjast og hún minnir mann á tiltekt, jólaundirbúning og (vonandi) notalegheit. Aldrei þessu vant erum við snemma á ferðinni og komin vel á stað með undirbúning. Í miðri vinnuviku datt mér í hug að baka smjörkökur af því ég var einn heima með Signýju og Hugrúnu (þessi uppskrift er nú það einfaldasta í bókinni). Tveim dögum síðar fylgdi Vigdís þessu eftir með tveimur sortum. Í gær stóð til að gera enn meira, en það hefur frestast þangað til á morgun.

Við ætlum að vera sérlega hagsýn og skynsöm þessi jól. Eitt okkar helsta ráð til að flýta jólaundirbúningi er að halda upp á afmæli Signýjar viku á undan áætlun. Sjötta desember verður haldið upp á afmælið formlega með veislu. Þetta helgast nú reyndar af því að Vigdís er að vinna talsvert helgina á eftir en eftir á að hyggja finnst okkur þetta heppilegt. Þá fá allir meira svigrúm til að undirbúa jólin. Þetta býður líka frekar upp á að taka helgina á eftir (hina eiginlegu afmælishelgi) á móti þeim sem ekki komast helgina á undan. Bæði skiptin eru því "alvöru": fyrri helgin er veisluhelgin og hin er "afmælishelgin". Sem sagt, bráðsniðugt.

Þetta breytta fyrirkomulag ýtti okkur því af stað með allan undirbúning. Nú erum við líklega hálfnuð með smákökubaksturinn, byrjuð á gjafainnkaupum (sem skulu að mestu kláruð fyrir afmæli Signýjar) og byrjuð að taka til í stórum stíl. Heil geymsla (af þremur) hefur verið rudd og ísskápurinn er í þessum skrifuðum orðum að þiðna. Það þýðir náttúrulega tiltekt í honum í kjölfarið. Svo langar mig að státa af skemmtilegu endurskipulagi í eldhúsinu í leiðinni - sérstakt flokkunarkerfi í kryddhillu og frumlegri uppröðun á matreiðslubókum í eldhússkáp - en ég fer ekkert nánar út í það nema í eigin persónu.

Á meðan allt þetta gengur yfir vill svo til að leigusalinn okkar er á fullu utandyra að laga lagnir og leiðslur sem staðið hafa í opnum skurði síðan í sumar. Í dag mokaði hann endanlega yfir.

Opnum skurði, sagði ég? Þetta hljómar svo sem ágætlega en ef maður spáir í það: Getur skurður nokkurn tímann verið annað en opinn?

En sem sagt, athafnasamir dagar sem miðast allir að sérlegri afslöppun hér heima um leið og afmæli Signýjar sleppir.

Engin ummæli: