Síðustu tvær vikurnar hef ég ekkert skrifað en það helgast af því að tiltölulega fátt hefur á daga okkar drifið. Eins og flestir erum við í viðbragðsstöðu vegna svínaflensunnar. Vigdís fékk einhverja smápest og mátti ekki vinna vegna hennar síðustu helgi. Mögulega var þar um að ræða svínaflensuna sem náði þá ekki að grassera vegna forvarnarsprautunnar sem hún fékk nýlega sem heilbrigðisstarfsmaður. Eða kannski var þetta bara eitthvað allt annað. Annars höfum við verið mjög frísk eftir að ég náði mér sjálfur af flensunni minni þar á undan. Fórum fyrir tveimur vikum í bústað og höfðum það náðugt. Það er alltaf gott að sleppa aðeins út úr bænum.
Síðan við komum úr bústaðnum höfum við smám saman verið að venja Hugrúnu af næturbleyju. Við erum enn að nota leifarnar af bleyjupokanum sem hún kom með heim um daginn úr leikskólanum og ætlum okkur ekki að sólunda þeim kæruleysislega. Það verður ekki keyptur annar poki á þetta heimili! Þetta krefst auðvitað sérstakrar athygli af okkar hálfu. Það þarf að vekja hana á miðnætti og fara með hálfsofandi á klósettið (hún tekur því furðu vel). Svo er hún gómuð um miðja nótt ef hún byltir sér eða vaknar. Á morgnana fær hún heldur ekki að lúra fram eftir. En auðvitað gerast slysin þrátt fyrir allt. Þá kemur þvottavélin að góðum notum - sem, nota bene, þurfti viðgerðar við um daginn. Allt kemur þetta heim og saman.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli