Ég var að koma af kaffihúsarölti með Jóni Má. Það fór öðruvísi en ætlaði því upphaflega stóð til að fara í bíó, á myndina "Capitalism: A Love Story" (nýjustu Michael Moore myndina). Ég átti tilboðsmiða á myndina (tveir fyrir einn). Það gekk ekki betur en svo að tilboðið var háð greiðslu með Mastercard korti. Það stóð reyndar á miðanum ef rýnt var í smáa letrið en auðvitað hafði það farið fram hjá mér. Mér fannst líka skjóta verulega skökku við að mynd sem gagnrýnir peningahyggju samfélagsins skuli vera kynnt af markaðsráðandi kortafyrirtæki (og að tilboðið skuli háð skilyrðum frá þeim). Við hugsuðum okkur um andartak, því til greina kom að fara á myndina þrátt fyrir allt, en ákváðum að skella okkur í bæinn á endanum. Prinsippið vóg þar þungt.
Við gerðum það ansi gott í bænum. Satt að segja má segja að um hugmyndafræðilega byltingu hafi verið hjá mér að ræða persónulega því í stað þess að rölta á milli hvimleiðra kaffihúsa, uppfullum af skemmtanaglöðum (eða -þreyttum) Íslendingum fórum við á hótelin. Þar er mikið notalegri stemning en úti í samfélaginu. Þar er mjög huggulegt að spjalla í tímalausu umhverfi, fámennt og yfirvegað - jafnvel þegar lætin eru sem mest úti (eða því trúði einn þjónninn fyrir mér aðspurður). Það er einnig óhætt að segja um aðbúnaðinn á hótelunum að húsgögnin séu almennt vandaðri og þægilegri en annars staðar, enda ekki sami ólifnaðurinn sem líðst á hótelum og úti í samfélaginu. Það sem kom mér hins vegar mest á óvart var að verðið á veitingunum er ekki hærra en annars staðar. Kannski var það meinloka frá ferðum mínum erlendis sem fékk mig til að brennimerkja öll hótel sem ofurdýr afdrep. Það á líklega við víðast erlendis en ferðamenn hérlendis eru hins vegar varir um sig í okkar dýra landi. Það heldur verðinu á hótelveitingum verulega niðri, geri ég ráð fyrir. Til dæmis fékk ég mér sérlega myndarlegan og rausnarlegan kaffi latte á Radisonhótelinu á 390 krónur. Ég efast um að uppáhellingin annars staðar sé ódýrari nú til dags.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli