Nú er veikindatörn að baki. Hugrún veiktist lítillega á föstudaginn var - með magakveisu. Hún lagaðist fljótt en við létum hana vera með bleiu yfir helgina þar til hægðirnar formuðust almennilega. Á meðan veiktist Signý, aðfaranótt laugardagsins, með ælupest. Hún var strax betri á sunnudeginum. Á mánudeginum fór Hugrún í leikskólann en Signý var heima um sinn. Magakveisan tók sig hins vegar upp um kvöldið og við héldum henni heima á þriðjudag, ásamt Signýju (þær voru báðar full tæpar). Ég tók mér frí frá vinnu þann daginn enda leið Vigdísi eitthvað einkennilega, með magaverki (sem löguðust þegar á leið). Um kvöldið voru litlu stúlkurnar hins vegar orðnar bara nokkuð brattar en mér fór hins vegar að líða undarlega - með doða um liðamótin - eins konar létta beinverki. Til stóð að fara í bíó um kvöldið og var ég efins um þau áform. Eftir mælingu reyndist ég alveg hitalaus og skellti mér.
Fór með Jóni Má á "Stúlkuna sem lék sér að eldinum". Við urðum báðir fyrir vonbrigðum með myndina, sérstaklega í samanburði við fyrstu söguna (sem ég hafði séð og hann lesið). Atburðarásin var ótrúverðug á köflum, þræðir sögunnar of margir og flóknir (fyrir mig að minnsta kosti), og andhetjur sögunnar lygilegar í anda heljarmenna úr James Bond sagnabálkinum. Nei, hún skildi lítið eftir sig samanborið við fyrsta hluta. Ég held að veikindin hafi ekki haft mikið með matið að segja en ég verð samt að viðurkenna að mér var farið að líða undarlega, með skjálfta og beinverki þegar á leið.
Síðan á þriðjudag hafa Signý og Hugrún farið í leikskólann eins og ekkert sé á meðan ég hef verið heima lasinn. Ég skalf eins og hrísla um tíma og á miðvikudag var hitinn stöðugt vaxandi frá mildum ca. 38 stiga hita og upp í 39 og toppaði í 39,4 en verið hægt og rólega á undanhaldi eftir það (hitalaus í gærkvöldi). Núna er ég með leifar af veikindunum í bólgnum hálsi og með þrálátan verk í höfðinu. Hlýt að verða fullfrískur yfir helgina. Ef maður setur þetta í stærra samhengi þá skilst mér að svínaflensan sé mikið öflugri. Þá á maður víst að steinliggja. Hún kemur með mjög háan hita og er með engin vettlingatök ólíkt þessari flensu. Í gær var ég meira að segja nógu brattur til að keyra Vigdísi upp á spítala. Hún er í vaktafríi en þurfti að láta sprauta sig eins og allt heilbrigðisstarfsfólk. Nú bara vonar maður það besta. Ekki nenni ég að vera veikur aftur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli