fimmtudagur, október 01, 2009

Þroskaferli: Burt með allar bleyjur

Hugrún hefur staðið sig sérlega vel undanfarnar þrjár vikur við að losa sig við bleyjurnar og pissar nú nánast eftir pöntun. Fyrir mánuði síðan leit þetta ekki svona vel út. Reyndar nær sagan ár aftur til þess tíma þegar Signý var að venja sig af bleyjum. Þá vildi Hugrún prófa líka að pissa í kopp. Okkur fannst hún þessleg að hún myndi ná þessu fljótlega. Hún sat hins vegar upp á "sportið" en náði aldrei árangri. Þar sem blöðrubólguvandinn var enn til staðar vildum við ekki setja á hana neina pressu að svo stöddu og vonuðumst bara til að þetta kæmi af sjálfu sér. Jólin gengu í garð og ekki vildi hún klára dæmið. Hún var ekki orðin tveggja ára - og átti raunar nokkuð í land með það (fjóra mánuði eða svo) - þannig að við sátum bara hjá og reiknuðum með að páskarnir yrðu gjöfulli. Þeir fóru hins vegar eins og þeir fóru - ég nánast hinum megin á hnettinum og aðalmálið að raska ekki heimilislífinu of mikið á meðan, enda nóg að gera fyrir. Þá fór sumrið að líta vel út. Það þarf nefnilega gott svigrúm til að koppavenja, helst frí, þannig að maður geti veitt aðhald allan sólarhringinn. Sumarið hefur mörgum reynst vel því þá er auðvelt að láta börnin spranga um úti bleyjulaus þar til eitthvað gerist (engum húsgögnum fórnað). Við vorum sannfærð um að þetta gengi auðveldlega eftir, enda Hugrún orðin rúmlega tveggja ára á þeim tímapunkti. En allt kom fyrir ekki. Við tókum af henni bleyjuna langtímum saman en það var sem hún héldi í sér á meðan, frá hádegi og langt fram á kvöld. Þetta leist okkur ekki vel á með tilliti til blöðrubólgunnar svo við leyfðum henni að losa í bleyju öðru hvoru. Það flækti hlutina. Hún var viljug til að sitja á koppinum - það vantaði ekki - en ekkert gerðist í svo ótalmörg skipti. Stundum losaði hún eftir að hafa nýlega staðið upp. Maður klóraði sig í kollinum - hefur hún sjálfstjórn (heldur í sér) eða ekki (nær ekki að losa)? Ég neita ekki að það var oft stutt í gremjuna.

Í lok júlí fórum við með Hugrúnu í rannsókn, eins og ég skrifaði um á sínum tíma. Þá gerðist nokkuð sérstakt. Í þvagblöðruna var dælt vökva með skuggaefni sem gerir þvagið sýnilegra á myndunum. Hún átti að pissa á meðan þau fylgdust með leið þvagsins. Ekkert gerðist hins vegar. Þá datt hjúkrunafræðingnum í hug að setja hana á kopp. "Glætan" hugsaði ég og fannst ólíklegt að hún myndi skila árangri svona eftir pöntun þegar við vorum búin að reyna mánuðum saman heima. En viti menn, hún pissaði! Væntanlega var hún komin alveg í spreng út af viðbótarvökvanum og mátti ekki við því að setjast upp. Sú litla var hins vegar mjög stolt og talaði um það reglulega á eftir hvað hún hafði verið "duleg a pissa í koppinn". Nú heldum við að hún væri bara búin að "fatta" þetta en samt varð bið á næsta árangri. Nokkrum vikum seinna kom næsta buna. Síðan ekki fyrr en fyrir þremur vikum síðan, einmitt þegar þær systur fóru í pössun til Beggu frænku sinnar, að hún pissaði í þriðja skiptið. Þá er eins og björninn hafi verið unninn, loksins. Eftir það náði hún árangri á hverjum degi - stundum að eigin frumkvæði og yfirleitt eftir pöntun. Hún er nú nýfarin að sleppa bleyju í leikskólanum og stendur sig bara ljómandi vel.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þetta er frábært.....
þvílíkur munur verður þetta ...
Dugleg stelpa....
Begga frænka