miðvikudagur, september 16, 2009

Upplifun: Jethro Tull tónleikarnir

Eins og venjulega gefst svigrúm til að blogga ekki fyrr en löngu eftir á. Núna er ég með hugann við frábæra tónleika sem ég fór á um helgina, með Jóni Má, Villa bróður og Guðmari vini hans. Jethro Tull var það í þetta skiptið. Þeir eru orðnir sannkallaðir Íslandsvinir (þetta er fjórða tónleikaheimsókn Ian Andersons, í eigin persónu eða með hljómsveitinni). Anderson er frábærlega öruggur sviðsmaður. Hann fór á köflum hamförum á sviðinu með látbragði og geiflum. Svo kann hann svo sannarlega að hafa ofan af fyrir áhorfendum milli laga með líflegu spjalli og húmor. Oft er það gálgahúmor í garð meðspilara sinna eða kaldhæðni gagnvart sjálfum sér og eigin lagasmíðum. Það er ekki síður gaman að horfa á svona jaxla taka eldgömul lög og umbreyta þeim í lifandi flutningi. Fyrir það fær hljómsveitin full af plúsum frá mér. Þetta voru flottir tónleikar sem uxu þegar á leið og urðu hreint magnaðir undir lokin.

Á meðan ég naut mín í Háskólabíói voru Signý og Hugrún hins vegar í góðu yfirlæti hjá Beggu systur sem af sínu örlæti bauðst til að passa einu sinni enn. Yfirleitt nýtum við svona tækifæri í sameiningu, við Vigdís, en engu að síður nýttist þetta henni mjög vel. Hún bauð til sín tveim systrum sínum í DVD-kvöld. Þegar ég kom heim, upphafinn af mögnuðum tónleikunum, tók við ekki síðri tónaveisla: "Heima" með Sigurrós. Ekki ónýt heimkoma það!

Engin ummæli: