Um daginn datt ég inn í grúsk á vefsetrinu sem kennir sig við tónkvísl (Pitchforkmedia). Þetta er sá vefmiðill sem nýtur hvað mestrar virðingar hjá tónlistarmönnum enda er þar tekinn púlsinn á því framsæknasta í tónlistinni hverju sinni. Þegar nýútkomin plata fær afbragðsdóma hjá þessum vefmiðli er umsvifalaust tekið mark á því og keppast aðrir netmiðlar og bloggarar heimsins um að kynna sér gripinn í kjölfarið. Ég hef reyndar ekki verið duglegur að eltast þetta og fletti tiltölulega sjaldan upp á Pitchforkmedia (mér nægir að skoða uppgjör bloggara og annarra netmiðla um áramót og tékka þá á helstu plötunum - þannig að ég fylgist með í annarri eða þriðju bylgju, má segja). Þarna skýli ég mér á bak við tímaskort (áhuginn er alveg fyrir hendi). Einnig hefur mér fundist umfjöllun þeirra í fyrstu sýn frekar óaðlaðandi, satt að segja. Þeir fjalla um tónlist á frekar háfleygan hátt með vísun í tónlist sem ekki allir þekkja. Þar að auki meta þeir plöturnar með einkunnagjöf sem hleypur á hundraðshlutum, sem virkar vægast sagt undarlega. Hvernig er hægt að gera greinarmun á plötu sem fær 9.2 og 9.3 í einkunn? Fyrir vikið hef ég fengið á tilfinninguna að þeir taki sig full hátíðlega með sinni læknisfræðilegu nákvæmni.
Núna er ég hins vegar tilbúinn til að meðtaka það sem þeir hafa að segja. Ástæðan er einfaldlega sú að ég komst yfir umfjöllun þeirra um tónlistarsöguna og fann undir eins að þeir virtust hafa svipað verðmætamat og fagurfræðilega nálgun og ég, þegar tónlist er annars vegar. Um er að ræða kaflaskipta umfjöllun um tónlist síðustu fjögurra áratuga þar sem hver áratugur er tekinn fyrir með lista yfir hundrað merkustu plötur hvers um sig. Yfirleitt er ég ekkert sérstaklega sammála svona listum og finnst hljómsveitum eins og Oasis og Sex Pistols gert full hátt undir höfði á kostnað hljómsveita sem voru raunverulega skapandi, framsæknar og spennandi. Hér gladdist ég hins vegar óskaplega. Látum okkur sjá:
Bestu plötur áttunda áratugarins (1970-1979)
1. Low - David Bowie
2. London Calling - the Clash
3. Marquee Moon - Television
4. There´s a Riot Going On - Sly and the Family Stone
..... Dylan, Brian Eno, Gang of Four, Joy Division, Led Zeppelin og Kraftwerk inni á topp tíu (ekki í þessari röð þó).
Hvernig er hægt annað en að taka mark á vefmiðli sem lýsir Low sem merkustu plötu þessa áratugar? Flestar sambærilegar umfjallanir hafa gert Ziggy Stardust mun hærra undir höfði en mín skoðun er sú að þessi plata sé margfalt merkilegri. Eins finnst mér stórkostlegt að sjá Marquee Moon og "Riot" svona ofarlega.
Kíkjum á næsta áratug (1980-1989):
1. Sonic Youth - Daydream Nation
2. Remain in Lights - Talking Heads
3. Paul´s Boutique - Beastie Boys
4. Doolittle - the Pixies
Næstu plötur geyma aðra Pixies plötu (Surfer Rosa) , Joy Division, Tom Waits, the Smiths (Queen is Dead), R.E.M. (Murmur) og Public Enemy. Í fyrsta lagi er unaðslegt að sjá topp tíu lista frá þessum tíma sem ekki geymir Joshua Tree. Í öðru lagi tvær Pixies plötur! Þetta er svo sannarlega tónlistarsagan eins og ég sé hana fyrir mér. Ég þekki ekki rappplöturnar tvær en efast ekki um að þær séu snilld... á bara eftir að gefa mig að þeim. Og Daydream Nation á toppnum! Svona á sko að slá um sig með tónlist!
Næsti áratugur (1990-1999)
1. Ok Computer - Radiohead
2. Loveless - My Bloody Valentine
3. The Soft Bulletin - the Flaming Lips
4. Neutral Milk Hotel - In the Aeroplane Over the Sea
Þarna var ég svo gjörsamlega sammála að ég nánast missti mig. Það hefði verið freistandi fyrir framsækinn lista eins og Pitchforkmedia að líta fram hjá Radiohead-plötunni, af því hún hefur verið mikið í útvarpinu, en þeir gera það ekki. Þeir eru einfaldlega ekki of uppteknir af sjálfum sér til að segja sannleikann: Ok Computer er einhver ótrúlegasta plata sem nokkurn tímann hefur komið út. Svo kemur Loveless strax í kjölfarið - önnur fullkomnun, en á mikið afmarkaðri hátt. Soft Bulletin er líka óaðfinnanleg plata. Ég einfaldlega varð að kynna mér plötuna í fjórða sætinu undir eins og var ekki lengi að falla fyrir henni. Þar er um að ræða mjög ólíklega samsuðu af tónlist sem gengur ótrúlega vel upp. Næstu plötur voru svo sem ekkert slor heldur: Tvær með Pavement, ein með DJ Shadow, Bonnie Prince Billie, Guided By Voices og svo auðvitað risaplatan með Nirvana (sem ég hreifst reyndar aldrei almennilega af).
Þegar þetta er allt tekið saman, eftir að hafa skimað yfir heildarlistana, sér maður að Pitchforkmedia leitar markvisst að skapandi og frumlegri tónlist en er ekki of uppskrúfuð til að líta fram hjá augljósri snilld sem nær til fjöldans heldur. Listamannasamfélagið sem hringaði sig um New York og Berlín á sínum tíma (Lou Reed, Brian Eno, David Bowie og David Byrne úr Talking Heads) fá veglegan sess í þessari umfjöllun. Það er mér mjög að skapi. Líka er gaman að benda á það að hún Björk fær þrjár plötur inn á þessa lista og Sigur Rós eina. Getum við annað en tekið mark á því?
Nú vantar enn þá yfirlit yfir síðustu tíu ár sem og sjötta áratuginn (1960-1969). Þetta er hins vegar hreint út sagt magnaður gagnabanki til að grúska í á næstunni. Þrjú hundruðu plötur frá 1970-1999 auk styttri lista yfir fyrri hluta þessa áratugar (2000-2004) og lista yfir bestu lög sjötta áratugarins og þess sjöunda (með tóndæmum). Ekki má heldur gleyma árslistum síðustu ára, eitt ár í einu. Þar sem ég þekki allra nýjustu tónlistina tiltölulega lítið (samanborið við eldri tímabil) get ég ekki annað en tekið áskoruninni fegins hendi á meðan ég hneigi mig fyrir Pitchforkmeida.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli