sunnudagur, september 27, 2009

Pæling: Furðumikil menningarskorpa

Nú er kreppa en menningin blómstrar! Alþjóðlega kvikmyndahátíðin er að renna sitt skeið á enda. Við kíktum á barnasýningar með Signýju og Hugrúnu, nokkrar stuttar í einum rykk. Þær myndir voru hver annarri furðulegri, en ein var þó stórskemmtileg og þess virði að sjá aftur einhvern tímann (Björninn kemur/Bear is coming e. Janis Cimermanis). Tilbreytingin var hins vegar af hinu góða í grámyglunni og rigningaréljasuddaslyddunni undanfarið. Ekki fór ég sjálfur á fleiri myndir á hátíðinni en kíkti hins vegar á indverska daga hjá Grand Hótel. Þar var boðið upp á indverskan mat í viku, bæði í hádegi og á kvöldin ásamt indverskum kvikmyndasýningum. Allt beint frá Indlandi. Þetta er auðvitað þemað í ár og ég skellti mér á fimmtudaginn var með vinnufélögunum. Maturinn stóð fyrir sínu (þó helst til mikið kryddaður og full mikið úrval af kjötréttum á kostnað grænmetis) og voru eftirréttirnir auðvitað bestir. Það er sérlega gaman að sitja þarna og borða. Hótelið býr yfir yfirbyggðu torgi á milli stórhýsa. Umhverfið minnti mig helst á New York, svona í fljótu bragði, og náttúruleg birta og opið rými minnti mann á góðviðrisdag í útlöndum. Ég mæli því eindregið með þessu, sem upplifun, ef menn vilja eitthvað nýtt og öðruvísi. Þeir eru víst með hádegishlaðborð dags daglega á 2.400 manninn. Ekki slæmt.

Eins og ég minntist á þá voru kvikmyndasýningar í boði hótelsins á sama tíma. Tímasetningin hlýtur að teljast óheppileg í ljósi alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar. En er þetta ekki alltaf svona!? Yfirleitt skiptast á offramboð og gúrkutíð þegar menning er annars vegar. Á sama tíma var nefnilega bókmenntahátið, sem hefði verið gaman að kíkja á, og vísindasýning fyrir börn og fullorðna í Listasafni Íslands. Svo var fjölbreytt tónleikahátíð í gangi núna um helgina (Réttir) og önnur kvikmyndahátið (norræn) að renna í hlað. Hvað ef maður er veikur í viku? Verður maður þá að bíða í nokkra mánuði eftir næsta skammti?

Af hverju er þetta svona? Mig grunar að þetta liggi svolítið í eðli landans. Við erum skorpufólk, við skeytum engu um það hvað næsti maður er að gera (og samræmum ekki áætlanir okkar) og sveiflumst öll meira eða minna með sömu öfgafullu tímaklukkunni, ársveiflum ljóss og myrkurs sem trekkja okkur upp að því er virðist jafn hratt. Um leið og verslunarmannahelgin slúttar sumrinu og kvöldmyrkrið fer að læðast inn hefst undirbúningstími okkar allra fyrir veturinn með þeim afleiðingum að uppskeran er öll meira eða minna á sama tíma. Eða hvað? Vonandi hugsa ekki allir eins og stíla inn á sama "dauða tímann" í september. Ætti október að vera eitthvað verri mánuður fyrir menningarveislur?

Engin ummæli: