fimmtudagur, september 10, 2009

Þroskaferli: Tónlistarnæmni systranna

Í kvöld hlustuðum við Signý og Hugrún á Karnival dýranna eftir Camille Saint-Saens. Þar er líkt eftir ýmsum dýrum með stuttum en hugmyndaríkum tónsmíðum. Þær hafa svo sem heyrt þetta áður en mér fannst þær hlusta betur núna. Þegar kom að kafla um steingervinga (Tóndæmi: Carnival of the Animals - Fossils) kviknaði einhver tenging hjá þeim báðum og þær ústkýrðu fyrir mér að þarna væri Mikki og Mína að fara til nornarinnar. Ég fattaði strax að þær voru að vísa í myndband sem var í uppáhaldi hjá þeim á netinu þar sem Mikki og Mína lenda í hrakningum hjá norn (með vísun í Hans og Grétu). Þetta var allt sett fram við undirspil klassískrar tónlistar. Það var hins vegar ekki rétt hjá þeim að þetta væri sama lagið en samt voru lögin að mörgu leyti mjög svipuð. Þegar ég fór að hugsa málið frekar áttaði ég mig á því að viss fimm nótna lykilfrasi var nánast sá sami. Það sem meira er að lögin voru bæði frönsk (hljómaheimurinn mjög áþekkur). Síðan áttaði ég mig á því að hitt lagið var Danse Macabre, einnig eftir Saint-Saens!

Sjá hitt myndbandið hér: Mikki og Mína (Hans og Gréta)

Mér var nokkuð brugðið þegar ég komst að þessum tengslum. Lögin tvö hef ég þekkt lengi en aldrei áttað mig á því hvað þau eru lík. Í leiðinni er ég eiginlega gáttaður á næmninni í Signýju og Hugrúnu því þær tengdu þetta báðar saman hikstalaust.

Engin ummæli: